Árið 2016 var gott hjá flestum sveitarfélögum landsins og var afkoma margra mun betri en spáð hafði verið. Af 74 sveitarfélögum landsins hafa 63 skilað ársreikningum en í þeim sveitarfélögum sem skilað hafa ársreikningum búa um 99% þjóðarinnar. Þetta kemur fram í úttekt Agnesar Bragadóttur í Morgunblaðinu í dag.
Orðið hefur tæplega 24 milljarða króna viðsnúningur á rekstri A-hluta sveitarfélaganna, hallinn fyrir tveimur árum nam 15,5 milljörðum en á síðasta ári var afgangur upp á 8,5 milljarða. Tekju A-hlutans hafa hækkað talsvert eða um 11,7% og gjöld um 2,5% er því er fram kemur í fréttabréfi hag- og upplýsingasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga. A-hluta tilheyra fjárútlát sem að stærstum hluta eru fjármögnuð með skattheimtu. Laun og tengd gjöld hjá sveitarfélögum hækkuðu um 6,4% milli ára.
Mörg sveitarfélög nýta sér þetta góða ástand til að greiða niður skuldir og hafa langtímaskuldir þeirra lækkað um 2,9% milli ára eða um 4,8 milljarða. Heildarskuldir, bæði skamm- og langtíma, hafa lækkað um 1,4%. Skuldir voru 86,5% af tekjum fyrir tveimur árum en eru nú 76,1%.
Í umfjöllun Morgunblaðsins er rætt við Halldór Halldórsson formann Sambands íslenskra sveitarfélaga og oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Hann segir það fagnaðarefni hve vel rekstur þeirra gangi en skýringin á því sé einföld, auknar útsvarstekjur sem hækkuðu um 11% milli ára. Sömuleiðis hafi meirihluti þeirra fengið í sinn hlut auknar tekjur af fasteignasköttum.
Halldór segir mörg sveitarfélög hafa nýtt tækifærið og greitt niður skuldir en það eigi þó ekki við í tilfelli þessi lang stærsta, Reykjavíkurborgar. Meirihlutinn þar hafi hreykt sér af góðri rekstrarafkomu sem hann segir að hafi ekki verið meirihlutanum að þakka, ástandið hafi einfaldlega verið með þeim hætti að annað var ekki hægt.