fbpx
Mánudagur 25.ágúst 2025
Eyjan

Ræða Vilhjálms Birgissonar á Sumarþingi fólksins

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 17. júlí 2017 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Frá Sumarþingi fólksins í Háskólabíó.

Kæru vinir og félagar.

Við erum hér samankomin á þessum fundi því við ætlum alls ekki að taka þátt í meðvikni, þöggun og gagnrýnislausri hugsun eins og gerðist fyrir hrun. Við erum líka hér samankomin til að mótmæla því siðrofi, þeirri sjálftöku, spillingu og græðgivæðingu sem enn og aftur eru farin að skjóta föstum rótum í okkar samfélagi.

Það er svo ótrúlegt og miskunnarlaust það sem almenningi í þessu landi hefur verið boðið upp á undanfarnar vikur og ár hvað sjálftöku og græðgi varðar í ljósi þess sem gerðist hér fyrir hrun.
Ég ætla að nefna nokkur dæmi um það sem hefur leitt til þess að siðferðis- og réttlætiskennd alþýðunnar er gjörsamlega að þrotum komin.

• Framkvæmdastjóri Framtakssjóðs fékk 20 milljónir fyrir að ná þriggja ára starfsaldri. Rétt er að geta þess að lífeyrissjóðirnir eiga um 70% í sjóðnum.

• Nokkrir aðilar fengi 90 milljóna bónus vegna uppgjörs til stjórnenda LBI sem heldur utan um eignir gamla Landsbankans.

• Kjararáð hefur hækkað laun æðstu stjórnenda ríkisins um 200 til 400 þúsund á mánuði með afturvirkni í allt að tæp 2 ár.

• Framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verslunarmanna hefur hækkað í launum um 1,6 milljón á mánuði frá árinu 2009 og er með 40 milljónir á ári eða rúmar 3 milljónir á mánuði.

• Árið 2015 seldi Arion banki Símann til vildarvina á sérkjörum og högnuðust þeir um 722 milljónir á 48 dögum.

• Allir þekkja Borgunarmálið fræga frá árinu 2015 þar sem íslenskir skattgreiðendur töpuðu milljörðum króna til fárra útvaldra.

• Árið 2016 tilkynntu tryggingafélögin um 10 milljarða króna arðgreiðslur vegna breytinga á reikningsskilaaðferðum á bótasjóðum

• Samkeppniseftirlitið tilkynnti um þá niðurstöðu að neytendur hafi greitt 4,5 milljörðum of mikið fyrir bifreiðaeldsneyti í smásölu bara fyrir árið 2014. Ástæðan sé sú að samkeppni sé verulega skert

• Árið 2016 greiddi Íslandsbanki um 400 milljónir í bónusa til starfsmanna.

• Stjórn VÍS tilkynnti í fyrra um hækkun iðgjalda vegna slæmar stöðu en nokkrum dögum síðar tilkynnir stjórnin um 75% hækkun launa stjórnarmanna.

• Árið 2015 fengu 20 starfsmenn gamla Straums Burðarás greiddan bónus uppá 3,3 milljarða.

• Íslensk heimili eru að greiða tæpum 2 milljónum meira í húsnæðisvexti en Danir af 30 milljóna króna láni eða sem nemur 160 þúsundum á mánuði.

Á þessum fréttum síðustu tveggja ára eða svo sést að græðgin, okrið, spillingin, óréttlætið og misskiptingin grasserar aftur á fullu í íslensku samfélagi og allt á kostnað almennings. Það sorglega í þessu öllu saman er að þessir aðilar sem raka til sín auði á kostnað alþýðunnar komast alltaf upp með það. Þeir virðast vera búnir að læra inn á það að það hvessir hressilega í þjóðfélaginu í nokkra daga og síðan lygnir á nýjan leik. Kannski er uppáhaldslagið þeirra með Ragnari Bjarnasyni þar sem segir í textanum:

„Það hvessir, það rignir en það styttir alltaf upp og lygnir…“

Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness.

Nú verða þingmenn og ráðamenn þessarar þjóðar að koma íslenskum almenningi til bjargar og taka á þessum gripdeildum. Það þýðir ekkert fyrir ráðamenn að koma alltaf fram þegar svona spillingarmál koma upp og segja þetta er klúður, okkur er misboðið og þeirra er skömmin og gera svo aldrei neitt. Hættið að tala og farið að standa með almenningi í þessu landi því yfirelíta landsins virðist líta á almennt alþýðufólk sem grálúsugt og það eigi bara að brosa, borga og þegja!

Munum kæru félagar að okurvextir, verðtrygging, misskipting, óréttlæti og ójöfnuður er ekkert náttúrulögmál heldur mannanna verk og öllu þessu er hægt að breyta, eina sem til þarf er kjarkur og vilji! Til þess þurfa stjórnvöld á hverjum tíma fyrir sig að vera á tánum en ekki hnjánum gagnvart valdaelítunni sem öllu vilja ráða og stjórna. Stöndum saman öll sem eitt, því við höfum fengið nóg!
Takk fyrir mig.„

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Prís: Mikilvægt að styðja við verðsamkeppni – hefur áhrif á allan markaðinn

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Prís: Mikilvægt að styðja við verðsamkeppni – hefur áhrif á allan markaðinn
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Sólveigu Önnu brugðið eftir viðtal við Heiðu borgarstjóra – „Einstaklingar sem að sækjast eftir miklum völdum verða að geta axlað mikla ábyrgð“

Sólveigu Önnu brugðið eftir viðtal við Heiðu borgarstjóra – „Einstaklingar sem að sækjast eftir miklum völdum verða að geta axlað mikla ábyrgð“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ari Kr. Sæmundsen skrifar: Fjármálalesblinda

Ari Kr. Sæmundsen skrifar: Fjármálalesblinda
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Hin raunverulega ástæða fyrir málþófinu um veiðigjöldin

Orðið á götunni: Hin raunverulega ástæða fyrir málþófinu um veiðigjöldin