fbpx
Fimmtudagur 28.ágúst 2025
Eyjan

Formaður VR sker upp herör gegn „sjálftöku og svívirðu“: Ætlar að sópa út úr lífeyrissjóðakerfinu

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 29. júní 2017 09:09

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR. Samsett mynd/DV

Ragnar Þór Ingólfsson formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur (VR) segir nóg komið af „sjálftöku og svívirðu“ í lífeyrissjóðakerfinu. Svo virðist sem að 20 milljón króna aukagreiðsla Framtakssjóðs Íslands á síðasta ári til Herdísar Drafnar Fjeldsted framkvæmdastjóra sjóðsins vegna starfa hennar þar sé kornið sem hafi fyllt mælinn og endanlega gengið fram af Ragnari Þór. Hann var í vetur leið kjörinn nýr formaður VR.

Ragnar Þór var í viðtali hjá Pétri Gunnlaugssyni í síðdegisþætti Útvarps Sögu í gær. Pétur hóf þáttinn á að segja að „forherðing yfirstéttarinnar“ á Íslandi vekti stöðugt meiri athygli og nefndi þar eingreiðsluna til Herdísar Drafnar Fjeldsted sem dæmi. Ragnar hóf mál sitt á að útskýra með eigin orðum hvað Framtakssjóður Íslands væri og hvað hefði gerst í þessu tilviki:

Þetta er í raun samningur sem er gerður við viðkomandi aðila í byrjun að starfi hann lengur en þrjú ár hjá sjóðnum þá fái hann 20 milljóna eingreiðslu. Þetta er eitthvað sem maður vonaði að væri liðið undir lok eftir sjálftökuna fyrir hrun. En ég held það sjái það nú allir að ballið er byrjað af fullum krafti og nú keppist sjálftökuliðið við að taka sem mest út úr almannasjóðum og fyrirtækjum sem tengjast til dæmis lífeyrissjóðum. Framtakssjóður hafði hlutverk. Lífeyrisjóðirnir máttu ekki kaupa til sín félög einir og sér, þeim eru takmörk sett lagalega séð. Þeir mega ekki eiga meira en 20 prósent í einstökum félögum og mega ekki vera með meira en 20 prósent af heildar eignum sínum fjárfest í einu og sama félaginu. Þannig að það er stofnaður þarna Framtakssjóður af lífeyrissjóðunum og Landsbankanum sem var í eigu almennings, þannig að þetta var í eigu skattgreiðenda og almennings  í landinu. Þessum Framtakssjóði, eða áhættufjárfestingasjóði – framtakssjóður er í raun nýyrði yfir áhættufjárfestingasjóð, var ætlað að kaupa upp fyrirtæki í heilu lagi sem lífeyrissjóðirnir gátu ekki gert nema gera það saman og það er flókið ferli.

Framtakssjóðurinn keypti þannig í fjölmörgum illa stöddum fyrirtækjum eftir hrunið haustið 2008:

Og selur síðan eigendum sínum, Lífeyrissjóði verslunarmanna, Gildi og fleiri lífeyrissjóðum, bréfin á bullandi hagnaði sem er síðan borgaður í Framtakssjóðinn sem er svo bókfærður inn í lífeyrissjóðina, þannig að þarna verður svona hringamyndun kaups og sölu eigna eftir hrun. Enginn veit hvers virði þessar eignir eru fyrr en þær verða á endanum seldar út úr lífeyrissjóðakerfinu. En það er búið að bóka gríðarlegan hagnað og það er búið að hrósa þessum stjórnendum í bak og fyrir, fyrir þessar hringamyndun viðskipta og síðan verðlauna þá með svona eingreiðslum,

sagði Ragnar Þór og benti á að Framtakssjóðurinn hefði ekki verið stofnaður með svona í huga:

Tilgangur sjóðsins var að vera sameiningartákn margra sjóða til að geta fjárfest sameiginlega og keypt upp félög í heilu lagi.

Ragnar benti þannig á að Framtakssjóðurinn hefði fyrst og fremst átt að vera praktískt tæki í höndum lífeyrissjóðanna. Svo vék formaður VR að eingreiðslunni til framkvæmdastjórans Herdísar Drafnar Fjeldsted:

Þessi eingreiðsla upp á 20 milljónir, þetta er bara svívirða. Ég þekki ekkert annað orð yfir svona gjörninga. Þetta er sjálftaka, svívirða og þarna er bara verið að seilast ofan í vasa launafólks vegna þess að við eigum þessa sjóði, svo sannarlega. Þarna eru forstjórar, eins og forstjóri Lífeyrissjóðs verslunarmanna og fleiri, sem eru að taka sér gríðarlega há laun og í þessu tilfelli er þetta í rauninni bara kaupaukagreiðsla, sem að á ekki að þekkjast lengur í okkar samfélagi.

Ragnar Þór bætti svo við:

Ég mun allavega beita mér fyrir því og byrjaður að vinna í því á fullu að það verði hreinsað þarna út.

Pétur Gunnlaugsson spurði formann VR hvort hann mætti mótstöðu vegna þess sem hann væri að gera og hefði í hug að gera?

Já, já. Að sjálfsögðu. En samt, mótstöðu og stuðningi. Ég finn gríðarlegan stuðning frá fólkinu og ákveðinn titring finn ég líka innan úr kerfinu. Maður skynjar það alveg.

Ekki var annað að heyra á Ragnari Þór en hann sé nú að skera upp herör gegn stjórnendum lífeyrissjóðanna sem margir hverjir eru á ofurlaunum sem formaður VR tilgreindi með talnadæmum þar um.

Þetta er ekki í neinu samhengi við það sem fólk er að fá greitt út úr þessu kerfi. Lífeyrisþegi sem á vart til hnífs og skeiðar, eða öryrki, eða fólk sem að hefur lægstu kjörin og getur ekki einu sinni unnið sér til framfærslu öðruvísi en að lenda í skerðingum á frítekjumörkum. Hvernig upplýsingar eða hvernig skilaboð eru þetta að fólk innan úr því kerfi sem það er að fá greitt út úr, [að þar sé starfsfólk] að fá 20 milljóna króna bónus? 20 milljónir! Þetta eru engir smápeningar og ofan á það sem þetta fólk er að fá fyrir…Við eigum bara sem samfélag og stjórnendur eins og í mínu tilfelli, formaður stærsta stéttarfélags landsins, við eigum ekki að láta bjóða okkur þetta. Ekki undir nokkrum einustu kringumstæðum. Þessu verður svarað af mikilli hörku gagnvart kerfinu. Ég get alveg lofað þér því.

Ragnar Þór sagði einnig:

Ég er með tveggja ára ráðningarsamning við félagsmenn VR og heiti þeim því og hef lofað þeim því að ég mun sópa þarna út. Ég er búinn að kalla okkar fjóra stjórnarmenn sem við eigum í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna á fund og ef að stjórnin mun ekki fara eftir því sem að við samþykktum inni í stjórn VR um launaþak á forstjóra Lífeyrissjóðs verslunarmanna og svo framvegis, að þá mun ég beita mér fyrir því að stjórninni verði skipt út. Það er bara svo einfalt.

Margt fleira var einnig rætt í spjalli þeirra Péturs og Ragnars Þórs, svo sem geysihár rekstrarkostnaður lífeyrissjóðakerfisins en Ragnar heldur því fram að stór hluti kostnaðarþátta þeirra svo sem greiðslur til stjórnenda séu faldar í bókhaldinu.

Þáttinn má heyra í spilaranum hér fyrir neðan:

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Upp með Njálu

Óttar Guðmundsson skrifar: Upp með Njálu
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Prís: Lokuðu á okkur í fyrra en vilja núna vera með

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Prís: Lokuðu á okkur í fyrra en vilja núna vera með
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sjálfstæðisflokkurinn: Innistæðulausir frasar – ætti heldur að hlusta en tala

Sjálfstæðisflokkurinn: Innistæðulausir frasar – ætti heldur að hlusta en tala
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson: Hvers vegna voru tillögur um afturköllun umsóknar svæfðar í tíð Sigmundar Davíðs og Guðlaugs Þórs?

Þorsteinn Pálsson: Hvers vegna voru tillögur um afturköllun umsóknar svæfðar í tíð Sigmundar Davíðs og Guðlaugs Þórs?