fbpx
Fimmtudagur 28.ágúst 2025
Eyjan

Mismunun dáinna

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 27. júní 2017 18:24

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ísafjarðarkirkja.

Sr. Magnús Erlingsson skrifar: 

Á Íslandi er í gildi jafnræðisregla og er hún tryggð í stjórnarskránni. Reglan kveður á um að allir skuli jafnir fyrir lögum og allir skuli njóta mannréttinda. Þetta er ein af grundvallarreglum í vestrænum lýðræðissamfélögum. Kannski mætta túlka þessa reglu, útvíkka hana svolítið og segja að í henni felist það að allir skuli sitja við sama borð eða eitt skuli yfir alla ganga.

En þannig er það nú ekki ávallt í íslensku samfélagi. Lengi vel var manni núið því um nasir að atkvæði okkar Vestfirðinga gilti á við fimm atkvæði í höfuðstaðnum. Að vísu hefur þessi mismunun eitthvað verið löguð á seinni árum með stækkun kjördæma. Ein tegund mismunar milli landsbyggðar og höfuðborgar hefur hingað til vakið litla athygli en það er mismunun í garð dáinna. Já, íslenska ríkið mismunar dánu fólki. Og þar sem dánir hafa ekki rödd í samfélaginu þá hef ég ákveðið að vekja máls á þessu misrétti, enda bitnar það líka á okkur, er enn lifum.

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Mynd: DV.

Þannig er að þegar einhver deyr á Ísafirði, hvort sem er í heimahúsi eða á sjúkrahúsi, þá er viðkomandi fluttur í sérstakt líkhús á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Þar ræður ríkjum hjúkrunarforstjórinn Hörður Högnason. Hann ásamt sínu góða samstarfsfólki veitir alla almenna líkhúsþjónustu; svo sem að geyma lík í kæli, leggja það í kistu og annað, sem tilheyrir slíkri þjónustu. Og þessi þjónusta er í boði íslenska ríkisins, enda starfsfólk heilbrigðisstofnana vinnandi hjá íslenska ríkinu. Á nokkrum stöðum úti á landi munu sveitarfélög einnig reka líkhús en sveitarfélögin eru auðvitað opinberir aðilar. Þau er nánast eins og hin höndin á ríkinu.

Hins vegar veitir ríkið ekki líkhúsþjónustu í henni Reykjavík. Þar er stólað á að sjálfseignarstofnun ein sjái um að reka líkhús. Það undarlega er að sjálfseignarstofnunin má ekki rukka fyrir þessa þjónustu. Það er fágæt mismunun að fólki eða stofnun sé bannað að rukka fyrir veitta þjónustu. Einkaaðilar mega rukka fólk fyrir að skoða Kerið í Grímsnesinu og auðvitað mega einkaaðilar selja ferðamönnum gistingu og aðra þjónustu. En téð sjálfseignarstofnun í Reykjavík má ekki rukka fyrir gistingu látinna. Sjálfseignarstofnunin, sem hér er um rætt, heitir Kirkjugarðar Reykjavíkur. Þeir hafa í mörg ár rekið líkhús fyrir alla höfuðborgarbúa en nú hafa þeir hjá Kirkjugörðunum sagt stopp: Frá og með næstu áramótum mun líkhúsinu í Fossvogi verða lokað. Verður þá væntanlega horfið aftur til þess tíma í höfuðstaðnum þegar fólk var kistulagt í heimahúsum, látið standa uppi í nokkra daga og síðan höfð húskveðja áður en hestvagn flutti kistuna út í Hólavallakirkjugarð til greftrunar.

Mynd/Getty

Þó svo að ég sé enginn sérstakur talsmaður höfuðborgarbúa þá blöskrar mér hvernig íslenska ríkið saumar að lýðnum þarna í henni Reykjavík. Úti á landi sér ríkið um að hýsa látna og veita þeim líkhúsþjónustu en í Reykjavík er ekkert slíkt í boði, – og meira en það, einkaaðilum og sjálfseignarstofnunum er bannað að rukka fyrir að veita þessa þjónustu, sem ríkið veitir annars staðar á landinu endurgjaldslaust. Er þetta ekki mismunun? Er þetta ekki brot á jafnræðisreglu eða gildir hún einungis þegar lifandi eiga í hlut? Ég hef alltaf staðið í þeirri trú að í dauðanum verði allir jafnir. Þá hverfi öll mismunin og allir fá sitt leg í kirkjugarðinum, allir fái jafn stórt pláss og allt það. Þess vegna finnst mér að ríkið mismuna dánum. Það er mismunun að bjóða upp á líkhúsgistingu og þjónustu úti á landi en ekki í höfuðstaðnum. Mér finnst þetta næstum eins og ríkið tæki upp á því einn daginn að hætta alfarið að reka framhaldsskóla í Reykjavík og bannaði síðan einkaskólum í bænum að rukka fyrir sína þjónustu!

Máltækið segir að það sé engin regla án undantekninga. Og svo er einnig í þessu máli. Þannig er að ríkið stendur fyrir líkhúsþjónustu á öllum stöðum úti á landi nema einum. Og þessi eini staður er Hólmavík. Þar er líkhúsið í kirkjunni. Í herbergi sunnan megin við kór kirkjunnar hefur verið komið fyrir snotru og litlu líkhúsi. Og það besta er að formaður sóknarnefndar sér um líkhúsþjónustuna frítt, – leggja í kistuna og allt saman.

George Orwell skrifaði nokkrar merkilegar bækur. Í bókinni Animal Farm er að finna fræga setningu um að sumir séu jafnari en aðrir. Í bókinni er þessi setning sögð til að útskýra af hverju eitt skuli ekki yfir alla ganga. Og þess vegna hlýt ég að enda þennan pilstil á því að segja: Sumir dánir eru jafnari en aðrir!

Greinin birtist fyrst í Vestfjörðum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

EyjanFastir pennar
Fyrir 40 mínútum
Mismunun dáinna

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: Réttindi og skyldur

Björn Jón skrifar: Réttindi og skyldur
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Valdaflokkarnir gáfu landsbyggðinni langt nef

Sigmundur Ernir skrifar: Valdaflokkarnir gáfu landsbyggðinni langt nef