Á fimmtudag undirrituðu Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Hilmar Ágústsson forstjóri byggingarfélagsins Skugga samkomulag um uppbygginguna á Útvarpsreitnum svokallaða við Efstaleiti í Reykjavík.
Fyrirtækið Skuggi 4 hefur þegar hafið framkvæmdir á reitnum.
Þar munu 361 íbúðir rísa á næstu þremur árum auk um 1000 fm atvinnuhúsnæðis sem hannað verður að stórum hluta undir þjónustu við íbúana.
Gert er ráð fyrir að fyrstu íbúðir verði afhentar sumarið 2018. Skuggi 4 selur íbúðir á reitnum til aðila á frjálsum markaði, m.a. til leigufélaga til að stuðla að félagslegri blöndun,
segir í fréttatilkynningu Reykjavíkurborgar.
Reykjavíkurborg mun selja Skugga 4 byggingarrétt sinn á reitnum fyrir 175 milljónir og kaupir samhliða 15 íbúðir sem verða dreifðar um reitinn. Íbúðirnar sem Reykjavíkurborg mun kaupa samkvæmt samkomulaginu verða á bilinu 40 – 60 fermetrar að stærð auk geymslu sem skal verða 5 – 7 fermetrar.
Byggingarréttarsalan er hluti af samningi Reykjavíkurborgar við RÚV um endurskipulagningu reitsins en þar eru þegar hafnar miklar framkvæmdir.
Þann 13. október 2015 var undirritaður kaupsamningur milli Skugga 4 ehf. og RÚV um kaup á stærstum hluta lóðarréttinda, þ.m.t. byggingarrétti á Útvarpsreitnum.
Með samkomulaginu sem undirritað var á fimmtudag selur Reykjavíkurborg byggingarrétt sinn á Útvarpsreitnum til Skugga 4 ehf., sem heldur í kjölfarið á öllum byggingarétti á reitnum.