„Alþingi kaus um dómara í Landsrétt í einum pakka en ekki um hvern fyrir sig eins og lög fyrirskipa. Forseti Íslands verður að vera viss um þetta áður en hann skrifar undir. Forseti Íslands er síðasti öryggisventillinn í þessu máli. Hann getur neitað að skrifa undir og þá þarf þingið að vinna málið aftur.“
Þetta segir Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírata sem skorar á forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannesson að skrifa ekki undir ný lög um landsrétt sem Sigríður A. Andersen lagði fram í þinginu og var samþykkt í gær. Þá hafa Píratar stofnað undirskriftasöfnun en þar segir:
Alþingi samþykkti skipun 15 dómara gegn ráðlagningu fagnefndar í einni atkvæðagreiðslu, en dómara skal þingið samþykkja hvorn fyrir sig ef farið er á skjön við ráðlagningu. Þar með er skipan dómara í landsrétt ólögmæt og við hvetjum forseta Íslands að skrifa ekki undir hana.
Það er ekki í lagi að leyfa ráðherra að skipa dómara eftir forsendum sem einungis hún þekkir. Stöndum vörð um réttarkerfið okkar og krefjumst útskýringa.
Jón Þór reyndi að ná í Guðna símleiðis og komst að því að Guðni er erlendis. Sjálfstæðismennirnir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Unnur Brá Konráðsdóttir standa vaktina á meðan.
Guðni er erlendis svo Bjarni Ben sem forsætisráðherra og Unnur Brá sem forseti Alþingis hafa forseta valdið til að skrifa undir. – Ef þau voga sér!!!
segir Jón Þór og bætir við:
„Stöndum vörð um réttarríkið!!! – Skrifum undir til Guðna forseta.“
Hér má finna undirskriftasöfnunina.
Unnur Brá Konráðsdóttir forseti Alþingis segir í samtali við Eyjuna að tillagan sé nú komin til ríkisstjórnarinnar og býst hún við að tillagan komi á borð forseta Íslands þegar hann komi heim frá útlöndum. Sem forseti Alþingis er Unnur Brá einn handhafa forsetavalds ásamt Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra og Þorgeiri Örlygssyni forseta Hæstaréttar. Samkvæmt stjórnarskrá sinna þau hans skyldum ef hann getur ekki gengt störfum sínum, þar á meðal vegna dvalar erlendis. Aðspurð hvort hún muni sem handhafi forsetavalds skipa í embættin segir Unnur Brá:
Ég á ekki von á því að það komi til þess, ég held að forseti sé ekki lengi í útlöndum.