„Íslenska með hreim er líka íslenska. Íslenska með beygingarvillum er líka íslenska. Íslenska með rangri orðaröð er líka íslenska;“ segir Eiríkur Rögnvaldsson prófessor í íslenskri málfræði í stuttum pistli á Facebook-síðu sinni. Hann deilir frétt Eyjunnar um svívirðingar sem Nichole Leigh Mosty þingmaður Bjartrar framtíðar hefur orðið fyrir. Nichole hefur mátt þola mikla gagnrýni í vikunni, eða allt frá því að hún tjáði sig um ummæli Mikaels Torfasonar um fátækt á Íslandi. Þorsteinn Víglundsson og Hildur Sverrisdóttir hafa varið þingmanninn.
Nú bætist Eiríkur í hópinn. Hann segir:
„Við eigum að fagna því að fá til landsins fólk sem vill læra og nota íslensku. Það er til skammar að nota einhver frávik frá viðurkenndu máli til að gera lítið úr þessu fólki og málflutningi þess. Sú framkoma er ekki íslenskunni til framdráttar, heldur þveröfugt – hún leiðir til þess að fólkið missir áhugann á að læra málið og eykur líkur á því að hér verði til hópar fólks sem þorir ekki að nota íslensku af ótta við að verða tekið fyrir.“