Sjálfstæðisflokkurinn ræður öllu í ríkisstjórninni og á þingi á meðan Viðreisn og Björt framtíð eru nánast umboðslausir. Þetta sagði Birgitta Jónsdóttir þingmaður Pírata í útvarpsþættinum Harmageddon á X-inu í morgun. Ræddi hún nýjustu skoðanakönnunina þar sem kom fram að Sjálfstæðisflokkurinn hefur bætt við sig fylgi frá kosningum en bæði Björt framtíð og Viðreisn myndu ekki koma mönnum á þing ef kosið væri í dag:
Mér finnst svolítið merkilegt í þessari skoðanakönnun að sjá að tveir stjórnarflokkarnir séu nánast umboðslausir í þessari ríkisstjórn, finnst mér. Þegar svona fáir landsmenn treysta þeim. Ég man þegar ég var í Borgarahreyfingunni og við splundruðumst í tvennt, þá fórum við niður fyrir fimm prósent þröskuldinn. Sálrænt séð þá er það rosa óþægilegt, þú upplifir þig umboðslausan,
sagði Birgitta. Aðspurð um hvort það væri hennar mat að þessi ríkisstjórn sé verri en ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins á síðasta kjörtímabili sagði Birgitta:
Já, ég myndi segja það. Því þetta er bara Sjálfstæðisflokkurinn. Sjálfstæðisflokkurinn ræður öllu. Sjálfstæðisflokkurinn ræður þinginu. Það er engin reynsla hjá Viðreisn og Bjartri framtíð þegar kemur að þingstörfum. Þannig að við erum bara með einn risastóran Sjálfstæðisflokk sem ræður öllu og Sjálfstæðisflokkurinn er bara að njóta þess mjög vel.
Ef almenningur er sáttur við hvernig hlutirnir eru verði þeim þá bara að góðu.