Í nýrri íbúðatalningu Samtaka iðnaðarins kemur fram að samdráttur er í byggingu íbúða í Reykjavík, voru færri íbúðir í byggingu í Reykjavík í síðasta mánuði en í september í fyrra. Í Hafnarfirði og á Seltjarnarnesi eru færri íbúðir í byggingu núna en í Kópavogi, Garðabæ og Mosfellsbæ er verið að byggja fleiri íbúðir nú en í september 2016.
Alls eru 3.255 íbúðir í byggingu nú á höfuðborgarsvæðinu, sem er 10% aukning frá því í september. Aukninguna má rekja til Kópavogs, Garðabæjar og Mosfellsbæjar en samdráttur er í Reykjavík. Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina segir í samtali við Eyjuna að tölurnar frá Reykjavík komi ekki á óvart:
Þær koma mér ekki á óvart enda er Dagur búinn að vera telja upp hvað fasteignafélögin ætla að byggja í framtíðinni. Dagur hefur fengið að stunda þennan upptalningarleik sinn alltof lengi,
segir Guðfinna. Segir hún ljóst að lóðaskortsstefna Reykjavíkurborgar og einstrengisleg þéttingarstefna hafi aukið húsnæðisvandann verulega:
Staðan er bara einfaldlega þannig að Reykjavík hefur brugðist vegna lóðaskortsstefnu og einstrengislegrar þéttingarstefnu Dags borgarstjóra