Stór hluti Íslendinga er andvígur því að leyfa sölu áfengis í matvöruverslunum á Íslandi. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar könnunar MMR. 74,3% kváðust andvíg sölu á sterk áfengi í matvöruverslunum og 56,9% andvíg sölu á léttu áfengi og bjór.
Nokkur munur var á afstöðu eftir því hvort um var að ræða sölu á sterku áfengi eða léttu áfengi og bjór. Töluvert hærra hlutfall svarenda kváðust andvígir sölu á sterku áfengi, 74,3%, í matvöruverslunum heldur en sölu á léttu áfengi og bjór, 56,9%. Einungis 15,4% kváðust hlynnt sölu á sterku áfengi í matvöruverslunum en 32,7% kváðust hlynnt sölu á léttu áfengi og bjór.
Konur voru almennt líklegri en karlar til að vera andvígar sölu sterks áfengis í matvöruverslunum. Af konum kváðust 70% vera mjög andvígar sölu sterks áfengis í matvöruverslunum og 58% karla. Af körlum kváðust 14% vera mjög hlynntir sölu sterks áfengis í matvöruverslunum en 5% kvenna.
Andstaða við sölu sterks áfengis í matvöruverslunum jókst með auknum aldri en 46% þeirra á aldrinum 18-29 ára kváðust mjög andvíg og 81% þeirra sem voru 68 ára eða eldri. Stuðningsmenn Vinstri grænna voru hvað líklegastir til að vera andvígir sölu sterks áfengis í matvöruverslunum en 89% þeirra kváðust vera andvíg. Minnst andstaða var hjá stuðningsmönnum Pírata 55%, Sjálfstæðisflokks 65% og Bjartrar framtíðar 65%
Könnunin var gerð dagana 10.-15. febrúar 2017, spurðir voru 908 einstaklingar 18 ára og eldri.