Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness segir útgerðina ala á vantrausti og tortryggni milli sjómanna og útgerðamanna í pistli á Pressunni. Verðið sem norsku loðnuskipin fái fyrir aflann sem þau landa hér á landi séu 77 krónur á kílóið en Ísfélag Vestmanneyja sé að bjóða sínum sjómönnum á milli 18 og 44 krónur á kílóið af loðnu. 18 krónur fyrir loðnu til bræðslu og 44 krónur fyrir loðnu til frystingar.
Vilhjálmur vitnar í þessu samhengi til fréttar Fiskifrétta sem ber titilinn ,,Mestum afla landað á Eskifirði‘‘. Þar segir meðal annars:
Upplýsingar um sölur á loðnuafla norsku skipanna eru birtar á vef norska síldarsamlagsins. Búið er að skrá sölur á 41.154 tonnum sem landað hefur verið í Noregi, á Íslandi og ef til vill víðar. Heildaraflaverðmætið á því sem skráð hefur verið er 239 milljónir norskra króna (tæpir 3,2 milljarðar ISK). Meðalverðið er 5,8 krónur á kíló (76,9 ISK).
Um þetta segir Vilhjálmur:
Ég spyr af hverju er hægt að borga norsku skipunum meðalverð sem nær 77 krónum? Rétt er að geta þess að Ísfélagið í Vestmannaeyjum er að bjóða sínum sjómönnum loðnuverð frá 18 krónum til bræðslu og upp í 44 krónur sem er loðna til frystingar. Hvað er í gangi hér? Ég vil taka það fram að þetta loðnuverð er það lægsta sem ég hef séð og flestar íslenskar útgerðir eru að greiða mun hærra verð til sjómanna. En rétt er að geta þess að það verð nær samt alls ekki meðalverðinu sem norsku skipin fá.
Þetta segir Vilhjálmur að sé ekki til þess fallið að skapa sátt milli sjómanna og útgerðar en aðeins eru nokkrir dagar síðan að sjómenn samþykktu kjarasamninga með naumum meirihluta.