Kjarasamningar geta verið í uppnámi vegna hækkunnar kjararáðs á launum kjörinna fulltrúa og möguleiki á að samningar opnist í næsta mánuði . Fulltrúar ASÍ og SA hafa fundað í vikunni til að fara yfir forsendur samninga ASÍ við SA frá 2015, en að öllu óbreyttu standa þeir fram á næsta ár. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag. Þegar kjarasamningarnir voru samþykktir á sínum tíma var forsendan að launahækkanirnar í þeim samningi yrðu stefnumarkandi fyrir aðra samninga. Einnig voru efndir um fjölgun félagslegra íbúða, lækkun byggingarkostnaðar, stuðning við kaup á fyrstu íbúð og að kaupmáttur myndi aukast á árunum 2015 til 2018.
Fulltrúar SA og ASÍ vilja ekki ræða innihald fundarins á þriðjudaginn, en þungt hljóð var í fulltrúum ASÍ. Hópurinn kemur til með að senda frá sér niðurstöðu í næstu viku. Þó svo að samningar haldi þá má samt búast við áframhaldandi átökum á vinnumarkaði, en kennarar, læknar og BHM eru með opna samninga á árinu.