Frumvarp þingflokks Pírata um breytingar á lögum um kjararáð til að lækka laun þingmanna er rugl og hentistefna. Þetta segir Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Ræddi hann um stjórnmálin, þar á meðal frumvarp Pírata, í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun ásamt Birni Leví Gunnarssyni þingmanni Pírata. Sagði Björn að með frumvarpinu, sem Eyjan greindi frá í gær, væru Píratar að bregðast við úrskurði kjararáðs og laga þar sem augljóslega væri pottur brotinn. Brynjar sagði frumvarpið og umræðuna í kringum málið vera rugl:
Þetta er ruglumræða, Björn, og ótrúlegt að heill þingflokkur taki þátt í þessu rugli, að vísu ekki ótrúlegt með ykkur. En þetta er umræða sem er gjörsamlega óþolandi og búin að smita allt samfélagið og rugla alla umræðu. Mjög einföld leið, menn eru að fara að lögum,
segir Brynjar:
Ef menn vilja hinsvegar hafa þingmenn öðruvísi og lægri þá skulu menn bara setja sérstök lög um það. Taka þetta kjararáð bara út. Það þýðir ekki að búa til kjararáð til að úrskurða og dæma og svo þegar dómurinn hentar ekki einhverju fólki að þá á að taka það úr gildi. Þessi hugsun er galin.
Hvatti forsætisráðherra til að segja af sér
Björn Leví hvatti í gær Bjarna Benediktsson forsætisráðherra að segja af sér vegna skýrslumálsins svokallaða. Hefur Bjarni verið harðlega gagnrýndur fyrir hafa ekki birt tvær skýrslur sem unnar voru fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið á síðasta kjörtímabili, þrátt fyrir að hafa verið tilbúnar. Annars vegar var um að ræða skýrslu um umfang aflandseigna Íslendinga og skattaundanskot og hins vegar skýrslu um þjóðhagsleg áhrif leiðréttingarinnar. Segir Björn Leví alvarlegt að kjósendur hafi getað tekið tillit til efni skýrslunnar um aflandseignir Íslendinga fyrir kosningar, það sé vissulega ekki hægt að segja hvort skýrslan hefði haft áhrif á atkvæði kjósenda:
Ég gæti fullyrt eitt, ef það hefði komið frétt daginn fyrir, eða tveimur dögum fyrir kosningar að ráðherra sæti á skýrslunni, það hefði haft áhrif.
Brynjar segir ekki ástæðu til að ætla það, málefni aflandseyja hafi legið fyrir á síðasta þingi og þess vegna hafi Bjarni skipað starfshóp. Efnið sem honum hafi verið kynnt síðan 5. október hafi ekki byggt á gögnum, frekar skot út í loftið:
Það er heldur ekkert nýtt að svona skýrslur bíði, það sé óskað eftir frekari upplýsingum, það er allur gangur á því. Ég hef sjálfur verið í starfshóp fyrir ráðuneyti, það var skýrsla sem var birt löngu löngu síðar.