Franska stjórnmálakonan Marine Le Pen og frambjóðandi í frönsku forsetakosningunum neitaði að setja upp höfuðklút áður en hún hitti æðsta klerk Líbanons Abdel Latif Derian á fyrirhuguðum fundi. Le Pen er í Líbanon til að reyna að höfða til kjósenda af fransk-líbönskum ættum fyrir fyrstu umferð frönsku forsetakosninganna sem fram fara þann 23. apríl næstkomandi. Að sögn Le Pen kom það henni í opna skjöldu að vera beðin um að setja upp klútinn og að hún hafi hitti klerkinn fyrir 2 árum í Egyptalandi án þess að vera með klútinn og það hafi ekki þótt neitt tiltökumál.
Það má skila kveðjum mínum til æðsta klerksins en ég mun ekki hylja mig,
sagði Le Pen við blaðamenn.
Le Pen og flokkur hennar, franska þjóðfylkingin, hafa lengi talað gegn höfuðklútum og hefur hún lýst því yfir að ef hún fengi að ráða yrði slíkur klæðnaður bannaður í öllum opinberum byggingum.
Talsmaður æðsta klerksins, sem er leiðtogi sunní múslima í Líbanon, sagði í samtali við CNN að Le Pen hefði verið gert það ljóst fyrir fram að hún þyrfti að vera með höfuðklút til að sitja fundinn.
Ég tók persónulega á móti henni við innganginn og reyndi að rétta henni hvítan höfuðklút sem ég hélt á, hún neitaði að taka við honum.
Ég hvatti hana til að setja hann upp, hún neitaði og sagði að hún myndi ekki setja hann á sig og gekk burt án þess að mæta á fundinn sem var fyrir fram ákveðinn með æðsta klerkinum. Okkur þykir leitt að hún hafi hagað sér með slíkum hætti.
Skömmu eftir að atvikið átti sér stað tísti varaformaður flokks Le Pen, Florian Philippot um það og sagði að formaður sinn hefði sent skilaboð til kvenna í Frakklandi og um allan heim með því að neita að setja upp klútinn.