Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina segir Dag B. Eggertsson borgarstjóra ekki gera sér grein fyrir hlutverki sínu og ábyrgð, þess í stað sé hann að kenna öðrum um þegar það er hans eigin þéttingarstefna sem hefur aukið húsnæðisvandann í borginni. Borgarstjóri sagði í morgun að honum fyndist sem ný ríkisstjórn skili auðu í húsnæðismálunum, stefnan sé rýr og leiðrétting síðustu ríkisstjórnar hafi gert ungu fólki erfitt að eignast íbúð.
Guðfinna segir í samtali við Eyjuna að uppbyggingin gangi of hægt vegna fárra lóðaúthlutana, samkvæmt Þjóðskrá fjölgaði íbúðum í Reykjavík einungis um 1644 íbúðir 2010 til ársloka 2016, á sama tíma og nauðsynlegt hefði verið að fjölga þeim um 4.200:
Enn og aftur gerir Dagur borgarstjóri sér enga grein fyrir hlutverki sínu og ábyrgð og kennir öðrum um. Lóðaskortsstefnan hans Dags og einstrengisleg þéttingarstefna á dýrustu stöðunum í borginni á lóðum í eigu fasteignafélaga hefur stóraukið húsnæðisvandann í borginni allt á kostnað unga fólksins,
segir Guðfinna. Fasteignafélögum sé látið eftir að byggja íbúðir á dýrustu stöðunum í borginni á þeim hraða sem þjónar þeirra hagsmunum best:
„Fyrsta 31 mánuð kjörtímabilsins úthlutaði Dagur einungis fimm fjölbýlishúsalóðum með fleiri en fimm íbúðum, þar af var ein þeirra boðin út á almennum markaði, þ.e. Tryggvagata 13, tvær til eldri borgara, ein til Búseta og ein til Félagsbústaða til að byggja sex íbúða sambýli.“
Nauðsynlegt að skipuleggja meiri byggð
Reykjavíkurborg sendi frá sér fréttatilkynningu í morgun þar sem kom fram að smíði á 922 íbúðum hafi hafist í Reykjavík í fyrra, svipaður fjöldi og árið á undan. Guðfinna segir að um sé að ræða lóðir sem séu búnar að vera í höndum fasteignafélaga og banka í mörg ár, nauðsynlegt sé að skipuleggja meiri byggð í Úlfarsárdalnum:
Þar sem lóðirnar sem verið er að byggja á eru í höndum annarra en borgarinnar höfum við ítrekað bent á að það þurfi að byggja meira í Úlfarsárdalnum af fjölbýlishúsum meðal annars fyrir ungt fólk því þar á borgin lóðirnar og getur úthlutað þeim.