Rúmlega helmingur þjóðarinnar er óánægður með stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar en einungis fjórðungur þjóðarinnar er ánægður. Að sama skapi eru mun fleiri óánægðir með stjórnarsáttmálann en ánægðir, er einungis einn af hverjum hundrað Íslendingar að öllu leyti ánægður með stjórnarsáttmálann. Þetta kemur fram í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup.
Nú þegar um mánuður er liðinn frá myndun nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar virðist ekki mikil ánægja með stjórnarsamstarfið. Um helmingur þeirra sem taka afstöðu er óánægður með það, eða nær 51%, nær fjórðungur er ánægður og sama hlutfall hvorki ánægt né óánægt. Karlar eru ánægðari með stjórnina en konur. Munur mælist á viðhorfi fólks eftir aldri en þeir sem eru yngri en 30 ára eru síður óánægðir með sáttmálann en þeir sem eldri eru. Þeir sem hafa hærri fjölskyldutekjur eru að jafnaði ánægðari með stjórnina en þeir sem hafa lægri fjölskyldutekjur.
Þegar litið er til viðhorfs fólks eftir því hvað það kysi ef kosið yrði til Alþingis í dag er mest ánægja meðal þeirra sem kysu Sjálfstæðisflokkinn, eða rúm 75%. tæplega 57% þeirra sem kysu Viðreisn eru ánægðir og þriðjungur þeirra sem kysu Bjarta framtíð. Einungis á bilinu 0-3% þeirra sem kysu aðra flokka eru ánægð með stjórnarsamstarfið. Alls eru 65% þeirra sem styðja ríkisstjórnina ánægð með stjórnarsamstarfið.
Þeir sem þekktu eitthvað til innihalds stjórnarsáttmálans voru spurðir um viðhorf sitt til þess en ekki virðist mikil ánægja með sáttmálann. Ríflega 15% tóku ekki afstöðu en af þeim sem gerðu það eru fjórir af hverjum tíu óánægðir með innihald hans, nær 38% hvorki ánægð né óánægð en rúm 22% ánægð.
Karlar eru ánægðari með innihald sáttmálans en konur og munur mælist á ánægju með hann eftir aldri. Þeir sem hafa hærri fjölskyldutekjur eru að jafnaði ánægðari með sáttmálann en þeir sem hafa lægri fjölskyldutekjur. Um 56% þeirra sem styðja ríkisstjórninaeru ánægð með innihald sáttmálans. Þegar hlutfall þeirra sem eru ánægðir með sáttmálann er skoðað eftir því hvað fólk kaus í síðustu Alþingiskosningum er það einnig hæst meðal þeirra sem kusu Sjálfstæðisflokkinn og Viðreisn. Aðeins 6% þeirra sem kusu Bjarta framtíð eruánægð með sáttmálann en 54% óánægð.
Niðurstöður sem hér birtast eru úr netkönnun sem gerð var dagana 1. til 12. febrúar 2017. Heildarúrtaksstærð var 1.402 og þátttökuhlutfall var 59,5%. Einstaklingar voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.