Smári McCarthy þingmaður Pírata skrifar:
Á þeim stutta tíma sem ég hef verið á Alþingi hef ég lært nokkrar mikilvægar lexíur sem er kannski ágætt að koma á framfæri.
Fyrsta er sú að Alþingi er svo til getulaust. Samkvæmt stjórnarskrá á það að ráða lögum, en raunin er sú að Alþingi hefur mjög takmarkaða burði til að vinna löggjöf sjálft, og er fyrst og fremst í þeim bransa að samþykkja tillögur ríkisstjórnarinnar með afar litlum breytingum. Þingmannamál komast afar sjaldan í gegn, meðan mál ríkisstjórnarinnar eru stundum keyrð í gegn á svo miklum hraða að litlar sem engar líkur eru á að nokkur hafi náð að lesa í gegnum það áður en atkvæðagreiðslan fer fram. Ég lenti í því á dögunum að þurfa að greiða atkvæði um mál sem ég hafði heyrt um en ekki náð að lesa, og var það ekki fyrr en eftir atkvæðagreiðsluna sem ég fékk að vita að stóra atriðið sem stóð útaf í því hafði ekki verið lagfært.
Annað er hversu fáir fatta að Alþingi ræður afar litlu. Á dögunum stóð hópur fólks fyrir utan Alþingi og mótmældi. Ég fór til þeirra og spurði hvað málið væri. Eftir stutt samtal vísaði ég þeim á að mótmæla frekar fyrir utan Dómsmálaráðuneytið, því yfirkvörtunarefni þeirra var langt út fyrir það sem Þingið hefur yfirráð yfir. Almenna reglan undanfarna áratugi hefur verið að taka öll völd af Alþingi, um leið og þau uppgötvast. Fyrir vikið er t.d. gagnslaust, eftir gildistöku nýrra laga um opinber fjármál, að tala við þingmenn um nauðsyn þess að fá nokkrar milljónir til að gera við götin í þakinu hjá Garðyrkjuskólanum. Fjárlaganefnd ræður ekki nákvæmum úthlutunum lengur, bara stórum sjóðum fyrir málefni. Ráðherrarnir ráða hvernig peningum er ráðstafað innan málaflokks.
Þriðja er hversu mikið athygli er beint frá því sem skiptir máli, og að því sem er auðvelt að skilja. C. Northcote Parkinson skrifaði um það árið 1957, að fólk hefur tilhneygingu til að leggja meiri áherslu á þá hluti sem er auðvelt að hafa skoðanir um, en þá hluti sem eru flóknir. Hér um bil allt í bæði opinberri umræðu og á Alþingi sjálfu endurspeglar þessi sannindi. Samtals fóru rétt rúmlega tveir tímar á þinginu í að ræða fjárlög ársins 2017 ─ ráðstöfun 700 milljarða króna. En fjölmiðlar og samfélagsmiðlar eru nánast komnir í fullt starf við að flytja fréttir af nauðaómerkilegu áfengisfrumvarpi, sem reynsla síðustu ára sýnir að muni hvort eð er ekki komast í gegn, og virðist jafnvel vera beinlínis sett fram ár eftir ár til þess að afvegaleiða umræðuna.
Fjórða er hversu langt sumir flokkar eru tilbúnir til að teygja sannleikann. Umræðan um markmið ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum einkennist mikið til af því hver munurinn sé á einkavæðingu og einkarekstri. Staðreyndin er sú að munurinn er enginn meðan almenningur borgar, og aukinn einkarekstur er ekkert annað en aðferð til að moka peningum út úr almenna heilbrigðiskerfinu. Auðvitað hefur sumt verið í einkarekstri lengi, svo sem sálfræðiþjónusta og tannlækningar, en það er rugl að ætla að nota það sem réttlætingu á því að láta einkarekin sjúkrahús keppa í hagnaðarskyni við sambærileg sjúkrahús sem allir hafa jafnan aðgang að.
Allt af ofangreindu er auðvelt að laga. Það væri ekkert mál fyrir þingið að endurheimta vald sitt og virðingu frá ríkisstjórninni, að setja áhersluna á aðalatriðin, og að hætta að leyfa orðhengilshætti að stýra því hvernig umræðan fer fram.
Ég ætlaði mér upprunalega að skrifa um sjómannaverkfallið, en við þurfum að skilja að sjómannaverkfallið er birtingarmynd stærra vandamáls. Það er nefnilega ekki bara á Alþingi sem vald er í röngum höndum, aðalatriðin skilin útundan og umræðurnar oft á vafasömum forsendum.
Birtist fyrst í Suðra. Smelltu hér til að lesa blaðið í heild sinni.