Í nótt voru undirritaðir nýir kjarasamningar milli sjómanna og útvegsfyrirtækja. Eining mun hafa náðst um breytingar á olíuverðsviðmið, sjómenn fá allan öryggis- og hlífðarfatnað í té frá útgerðum, bætt verður úr fjarskiptamálum og menn fá sérstaka kaupskráruppbót. Auk þessa skal heildarendurskoðun fara fram á kjarasamningum á samningstímanum. Skattaafsláttur á fæðispeningum sjómanna mun ekki vera hluti af samningnum.
Fiskiskipsflotinn fer þó ekki á sjó þó búið sé að undirrita eins og iðulega hefur verið gert fyrrum. Samið var nú með þeim skilyrðum sjómannaforystunnar að samningurinn yrðu fyrst að fara í atkvæðagreiðslu meðal sjómanna og hljóta samþykki þar áður en skipin leystu festar. Ástæða þessa er að sjómenn hafa tvívegis fellt gerða samninga í þessari kjaradeilu.
Nú verður nýr kjarasamningur kynntur og atkvæðagreiðsla um hann fer fram. Vonast er til að henni ljúki á morgun, sunnudag. Verði samningurinn samþykktur ættu skipin því að geta lagt úr höfnum annað kvöld.