„Þetta mál er svolítið flókið í almennri umræðu því það er tvíþætt, annars vegar hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er þetta hlutverk að skoða hvort eitthvað í stjórnsýslunni sé óeðlilegt eða ekki samkvæmt lögum. Það er einangrað hlutverk nefndarinnar. Hins vegar er þessi umræða um þetta mál í heild, hvað finnst okkur um uppreist æru? Er þetta ekki úrelt og gamaldags hugsun um hvernig við lítum á glæpamenn? Mér sýnist nú flestir vera sammála um það. Varðandi þann anga málsins kemur ráðherra inn og hefur hún boðað breytingar, og sú vinna mun heyra undir allsherjar- og menntamálanefnd. Þetta er svona lykillmunur í umræðunni og ég skil að fólk ruglar saman, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur bara þetta afmarkaða hlutverk.“
Þetta sagði Hildur Sverrisdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins í útvarpsþættinum Harmageddon á X-inu í morgun. Ræddi hún fund nefndarinnar á mánudaginn þar sem hún og aðrir fulltrúar meirihlutans, að undanskyldum Brynjari Níelssyni formanni, véku af fundinum þegar kynna átti gögn sem varða uppreist æru Roberts Downey, dæmds kynferðsafbrotamanns, þar á meðal meðmælabréf sem eru að öllum líkindum þrjú.
Sjá einnig: Meðmælendur Robert Downey þrír eða fleiri?
Fulltrúar Pírata, Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Samfylkingarinnar hafa óskað eftir að forsætisnefnd fjalli um stöðu nefndarinnar þar sem það sé vandséð að fulltrúar meirihlutans geti fjallað um málið þar sem meðmælabréfin vekji spurningar um framkvæmd laganna af hálfu ráðherra og ráðuneytisins. Birgitta Jónsdóttir fulltrúi Pírata í nefndinni gagnrýndi Brynjar harðlega í samtali við RÚV og sagði það verða mjög flókið að vinna áfram með málið þar sem þingmenn meirihlutans hafi ekki séð bréfin:
Þegar við förum út í það að spyrja ráðuneytið nánar út í framkvæmdina, byggt á því sem við sáum í þessum bréfum, þá verður mjög erfitt fyrir meirihlutann að taka þátt í því, nema formann nefndarinnar sem tók við þessum bréfum. Hvernig geturðu framfylgt alvöru eftirliti Alþingis með framkvæmdavaldinu ef þú ert ekki tilbúinn til að vinna vinnuna – bara víkur af fundi?,
spurði Birgitta. Brynjar sagði hins vegar að ekkert óeðlilegt hefði gerst á fundinum:
Það sem gerist er að í lok fundarins er spurt hverjir vilja sjá þessi trúnaðargögn og það voru bara sumir nefndarmenn sem vildu það og aðrir höfðu ekkert að gera á fundinum.
Tilbúin að skoða gögnin ef nauðsyn krefur
Hildur segir að ráðuneytið hafi metið það svo undanfarin ár að meðmælabréf heyri ekki undir upplýsingalög, hún sjái ekki hvernig meðmælabréfin gætu haft áhrif á afstöðu sína í málinu:
Það sem lá að baki hjá mér var að ég gat ekki séð hvernig þessar upplýsingar, bara þessi meðmæli í þessu eina máli, myndu segja mér eitthvað varðandi þá afstöðu mína fyrir nefndinni um hvort eitthvað óeðlilegt hefði átt sér stað eða ekki,
segir Hildur, hún hafi fullan skilning á því að þetta komi fólki spánskt fyrir sjónir, hún hafi hins vegar ekki getað notað þessar upplýsingar í neitt:
Mér fannst ég ekki þurfa að sjá þessi meðmæli, í algjöru tómarúmi, burt séð frá verklagi um þetta mál, ef að málinu vindur þannig að það verði metið sem svo að nauðsynlegt sé að sjá þessi gögn, tala nú ekki um ef það eru komin einhver önnur gögn til að við gætum haft einhvern samanburð, þá að sjálfsögðu mun ég endurskoða það.
Hún segist ekki hafa verið hrædd við að sjá upplýsingarnar, það sé bara prinsippmál að stjórnvöld ættu ekki að búa yfir persónuupplýsingum sem séu þeim ekki nauðsynlegar.