Halldór Halldórsson oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík gefur ekki kost á sér til til setu á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í borgarstjórnarkosningunum á næsta ári. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Halldór sendi frá sér fyrir stuttu.
Hann segir að hann hafi tekið ákvörðunina nú í ágúst:
Framundan er mikilvæg ákvarðanataka grasrótar Sjálfstæðisflokksins í borgarmálunum og sanngjarnt að mínu mati að afstaða mín sem núverandi oddvita til framboðs eða ekki framboðs liggi fyrir áður en þessi tilhögun framboðsmála er ákveðin,
segir Halldór. Hann segir borgarmálin vera skemmtilegan vettvang, en það sé ótal margt annað sem hann vilji fást við, en hann hefur starfað á vettvangi sveitarfélaga í 24 ár, þar af þrjú ár sem oddviti í Reykjavík:
Ég geri ráð fyrir að verða að störfum sem borgarfulltrúi og oddviti Sjálfstæðismanna í borgarstjórn þar til nýkjörin borgarstjórn tekur við í júní 2018. Kjósendur kusu mig til 4 ára og hyggst ég sinna því verkefni sem mér var falið.