Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins segir þá Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra og Þorstein Víglundsson félagsmálaráðherra vera í villigötum. Segir Sigurður Ingi í grein í Fréttablaðinu í dag að það sé alrangt hjá Benedikt um að erfiðleika í sauðfjárframleiðslu megi rekja til nýs búvörusamnings og það sé einnig alrangt hjá Þorsteini um að hátt matvælaverð sé til komið vegna matvöru sem nýtur innflutningsverndar:
Sorglegt er að sjá hve litla þekkingu og skilning þessir ágætu herramenn hafa á málefninu og takmarkaða löngun til að setja sig inn í atvinnugreinar landsbyggðanna. Legg til að þeir stofni leshring og lesi nýja búvörusamninginn. Enn hefur ekkert „kindakíló“ verið framleitt undir nýjum búvörusamningi,
segir Sigurður Ingi. Markmikið með nýjum búvörusamningi sé að undirbúa landbúnaðinn fyrir áskoranir næstu ára og gera stuðningskerfið skilvirkara, bæði sé neytendum og bændum til hagsbóta. Afnumdar séu beingreiðslur til bænda, tollar hafi verið felldir niður til að örva samkeppni:
Ég held við getum öll verið sammála um að það er eftirsótt að geta valið um matvæli sem eru framleidd undir ströngu eftirliti þar sem notkun fúkkalyfja er brot af því sem gerist í öðrum ríkjum í Evrópu og að kröfur um aðbúnað dýra séu eins og best verður á kosið.
Grunsemdir beinast að álagningu matvæla í gengum milliliði
Sigurður Ingi segir að líkt og Þorsteinn fagni hann aukinni samkeppni þar sem neytendur geti borið saman verð og gæði, Þorsteinn sé hins vegar á rangri leið ef hann telur að matvælaverð sé bundið við tolla:
Staðreyndin er sú að búið er að fella niður tolla og lækka. Því er ekki lengur hægt að halda því fram að háir tollar stuðli að háu matvælaverði.
Sjá einnig: Þorsteinn vill Costco-áhrif á íslenskan landbúnað: „Það er löngu tímabært að breyta þessu“
Ef matvælaverð sé hátt hér á landi þá beinast grunsemdir Sigurðar Inga að álagningu matvæla sem verður til gegnum milliliði. Því til stuðnings hafi Samkeppniseftirlitið bent á að álagning verslana og/eða þar með vöruverð sé almennt hærra hér á landi vegna samþjöppunar einstakra aðila:
Getur verið að ráðherrar Viðreisnar séu í hagsmunagæslu fyrir fjármálaöfl og heildsala sem lengi hafa eldað grátt silfur við framleiðslugreinar landsmanna? Getur verið að hagræðingaraðgerðirnar sem ráðandi aðilar í versluninni fóru í hafi ekki skilað tilætluðum árangri? Þá má spyrja sig af hverju verslunin geti ekki mætt nýrri samkeppni sem hefur komið til síðastliðna mánuði.
Segir Sigurður Ingi að stefnuleysi ríkisstjórnarinnar sé algert, ráðherrar leyfi sér að ráðast á undirstöður atvinnugreinar landsbyggðarinnar á meðan forsætisráðherra og Sjálfstæðisflokkurinn leyfi Viðreisn að stýra umræðunni:
Hefur kúvending átt sér stað í forsætisráðuneytinu? Á að leyfa endalausar árásir á grundvallaratvinnugreinar landsbyggðarinnar? Það eru margir sem bíða svara – en munu ekki getað beðið endalaust!