Herdís Telma Jóhannesdóttir, sem skipaði 8.sæti á lista Framsóknar og flugvallarvina í síðustu borgarstjórnarkosningum, hefur sagt sig úr Framsóknarflokknum vegna deilingar Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur borgarfulltrúa flokksins á Facebook. Deildi Guðfinna frétt Kjarnans um ummæli Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur oddvita Framsóknar og Flugvallarvina um „sokkinn kostnað“ vegna barna hælisleitenda:
„Að gefnu tilefni skal það tekið fram að þessi skoðun Sveinbjargar er ekki skoðun eða stefna Framsóknar og flugvallarvina,“
sagði Guðfinna. Herdís Telma var gjaldkeri kjördæmasambands Framsóknarflokksins í Reykjavík, sat í miðstjórn og skipaði 17.sæti á lista Framsóknarflokksins í Reykjavík Suður í síðustu Alþingiskosningum. Segir hún í bréfi til fulltrúa flokksins í Reykjavík, sem hún sendi einnig á fjölmiðla, að hún sé búin að fá sig full sadda:
…mér sýnist á FB hjá Guðfinnu að hún hafi ein ýtt undir með því að deila frétt frá Kjarnanum þann 1. Ágúst sem er með fyrirsögn sem er ekki í samhengi við það sem hún segir,
segir orðrétt í bréfi Herdísar Telmu. Segist hún að hún sé „komin með alveg nóg“ af því að fólk megi ekki segja sínar hugmyndir og skoðanir lengur í flokknum:
Ef Guðfinna hefði ekki sett þetta á vegginn sinn þá hefði enginn frétta maður tekið þetta upp. Áfram heldur fólk í þessum „góða“ flokki að stinga hvort annað í bakið, ég er bara of saklaus að geta verið partur af svona samfélagi þetta er meira en mitt siðferði þolir.