Ummæli Ingu Sæland formanns Flokks fólksins um að hún sé „sennilega Marine Le Pen týpa“ hafa vakið mikla athygli og hafa nú þingmaður og varaborgarfulltrúi Pírata opinberlega hæðst að Ingu fyrir ummælin. Inga lét ummælin falla í samtali við RÚV í gærkvöldi þar sem fjallað var um fylgisaukningi Flokks fólksins í skoðanakönnunum undanfarið. Samkvæmt könnun MMR frá því síðari hluta júlí fengi flokkurinn 6,1% atkvæða en í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup mælist flokkurinn með 8,4% fylgi. Inga hefur verið sökuð um popúlisma en hún tók þann pól í hæðina að popúlisti væri einhver sem væri mjög vinsæll og hún væri sambærileg Marine Le Pen að því leyti að verið væri að mála sig af þeim sem myndi hvort sem er aldrei kjósa Flokk fólksins:
Ég er sennilega svona Marine Le Pen týpa sem er verið að mála mig af þeim sem munu hvort sem er aldrei kjósa flokkinn. Af okkur stafar ógn vegna þess að við erum boðberi breytinga. Við erum einlæg og heiðarleg og við vinnum af hugsjón og við ætlum að halda því áfram og við erum bara sátt við að vera popúlistar. Ég ætla að segja að það þýði bara það að vera vinsæll í dag
sagði Inga. Hafnaði hún því að Le Pen, sem bauð sig fram fyrir frönsku Þjóðfylkinguna í forsetakosningunum þar í landi í vor, væri fyrirmynd sín í stjórnmálum:
Nei ég þekki hana ekki neitt og mér gæti ekki verið meira sama um akkúrat Le Pen, ég bara óska þeim alls hins besta sko.
„Já ég er svona fasista týpa, en samt ekki“
Arnaldur Sigurðarson varaborgarfulltrúi Pírata deilir frétt um ummæli Ingu á Fésbók og spyr:
„Marine Le Pen týpa? Að ég skuli hafa samþykkt vinabeiðni frá þessari manneskju, gott að ég eyddi henni. Er í lagi að kalla Ingu fasista núna?“
Gunnar Hrafn Jónsson þingmaður Pírata bendir á að Inga hafi svo dregið samlíkingu sína við Le Pen í land og sagt að hún þekki Le Pen ekki neitt. Arnaldur segir það einmitt hafa verið skrautleg ummæli:
Já ég er svona fasista týpa, en samt ekki
Gunnar Hrafn bætir svo við:
Ég er alveg eins og þessi manneskja sem ég veit ekkert um.