Flokkur fólksins fengi 8,4% atkvæða ef kosið væri til Alþingis í dag og fimm þingmenn. Samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup sem birtur var í kvöldfréttum RÚV í gærkvöldi fengi Flokkur fólksins nærri tíu prósent atkvæða í Reykjavíkurkjördæmi Norður og í Suðvesturkjördæmi. Fengi flokkurinn 9,4% atkvæða í Suðurkjördæmi, 8,8% í Norðausturkjördæmi, 6,8% í Norðvesturkjördæmi en minnstan stuðning í Reykjavík Suður eða 5,6%. Flokkur fólksins fékk 3,5% fylgi í Alþingiskosningunum síðasta haust og náði ekki inn manni. Formaður flokksins, Inga Sæland, stefnir hins vegar á að verða oddviti flokksins í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík á næsta ári.
Athygli vakti að Inga sagðist sátt við að vera kölluð „popúlisti“ en það gerði Egill Helgason í nýlegum pistli hér á Eyjunni, líkir hún sér einnig við frönsku stjórnmálakonuna Marine Le Pen:
Ég hef ákveðið að taka jákvæða pólinn í hæðina og segja, ja popúlisti er bara svona einhver svakalega vinsæll. En ég veit náttúrulega hvað hugtakið er útbreitt fyrir. Ég er sennilega svona Marine Le Pen týpa sem er verið að mála mig af þeim sem munu hvort sem er aldrei kjósa flokkinn. Af okkur stafar ógn vegna þess að við erum boðberi breytinga. Við erum einlæg og heiðarleg og við vinnum af hugsjón og við ætlum að halda því áfram og við erum bara sátt við að vera popúlistar. Ég ætla að segja að það þýði bara það að vera vinsæll í dag,
sagði Inga í samtali við RÚV. Hún segir hins vegar að Le Pen sé ekki fyrirmynd hennar í stjórnmálum:
Nei ég þekki hana ekki neitt og mér gæti ekki verið meira sama um akkúrat Le Pen, ég bara óska þeim alls hins besta sko.