Benedikt Jóhannesson fjármála- og efnahagsráðherra segir það einfaldlega „góðan bisness“ fyrir fólk að vilja búa fyrir utan höfuðborgarsvæðið. Segir hann að besta byggðastefnan séu greiðar samgöngur, þar á meðal jarðgöng, ferjur og flug. Benedikt segir í færslu á Fésbók að eð því að líta á flug sem almenningssamgöngur fyrir þá sem búa fjarri höfuðborgarsvæðinu áynnist margt:
Flugferðir urðu tíðari og hagkvæmari. Þannig yrði ferðaþjónustan sterkari á þessum svæðum,
segir Benedikt. Deilir ráðherra grein Ívars Ingimarssonar sem skrifaði á Kjarnann að það hallaði á landsbyggðina því fólk sæi sér ekki fært að búa úti á landi þar sem þjónusta, afþreying, tækifæri og atvinna væri frekar að finna í höfuðborginni:
„Það þarf að byggja upp sterka byggðarkjarna í hverjum fjórðungi sem hafa gott aðgengi að höfuðborginni, þannig mun fólki fjölga út á landi, en fjölgun fólks er lykilatriði þess að auka þjónustu, fjölga tækifærum, byggja upp aðstöðu og skapa atvinnu á sjálfbæran hátt sem mun á endanum leiða til jafnvægis milli landsbyggða og höfuðborgar,“
segir Ívar og bætir við:
„Að gera innanlandsflug að almenningssamgöngum eins og gert er í Skotlandi er einföld og fljótleg leið til að stuðla að þessu jafnvægi, slíkt aðgerð mun styrkja þá byggðarkjarna sem nú þegar hafa sýnt sig að fólk vill búa á.“
Benedikt, sem er þingmaður Norðausturkjördæmis, hvetur fólk til að kynna sér málflutning Ívars, það sé „góður bisness“ að fólk vilji búa utan höfuðborgarinnar:
Ungt fólk sem vill nýta sér kosti þess að búa á landsbyggðinni gæti notið þjónustu og menningar á höfuðborgarsvæðinu mun tíðar. Margir telja að slíkt tal sé landsbyggðarvæl, en það er einfaldlega góður bisness að fólk vilji búa annars staðar en í Reykjavík. Þannig er hægt að byggja upp ferðaþjónustu og ýmiss konar iðnað tengdan sjávarútvegi víða um landið.