fbpx
Miðvikudagur 20.ágúst 2025
Eyjan

Alvarlegur fíknivandi vegna ávísaðra lyfja

Ari Brynjólfsson
Sunnudaginn 30. júlí 2017 16:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mynd/Getty

Ólafur B. Einarsson skrifar:

Mikil umræða hefur verið í fjölmiðlum í Bandaríkjunum vegna  dauðsfalla af völdum ópíóíða. Bæði er um að ræða misnotkun lyfja eins og Oxycodone sem er ávísað af læknum við svæsnum verkjum en einnig ólöglegs heróíns.

Í ræðu sagði Barack Obama frá því að fjórir af hverjum fimm einstaklingum sem glíma við heróínfíkn hafi byrjað fíknivanda sinn á því að misnota lyfið Oxycodone. Þegar fólk er komið í mikinn fíknivanda vegna lyfjanna er algengt að það leiti einnig í heróín sem er ódýrara.

Óhugnanlegar tölur

Árið 2015 glímdu tvær milljónir Bandaríkjamanna, tólf ára og eldri, við alvarlega fíkn vegna ávísaðra ópíóíða og 600 þúsund glímdu við opíóíðafíkn sem fólst í notkun heróíns. Ef sambærilegur vandi væri til staðar á Íslandi glímdu yfir tvö þúsund Íslendingar við alvarlegan fíknivanda vegna ávísaðra ópíóíða.

Þetta eru óhugnanlegar tölur en í fréttaflutningi hefur verið rætt um aðgerðir sem bandarísk heilbrigðisyfirvöld hafa ráðist í til að reyna að sporna við ástandinu en umfjöllunin hefur einnig snúist um að greina hvaða ástæður liggja að baki vandanum. Þessi mikli vandi hófst fyrir rúmum tuttugu árum með markaðssetningu lyfjafyrirtækja á nýjum lyfjum sem áttu að virka vel gegn verkjum en áttu ekki að skapa fíknivanda.

Skelfilegar afleiðingar

Árið 1996 kynnti lyfjafyrirtækið Purdue Pharma lyfið OxyContin sem átti að vera öruggara form ópíóíða. OxyContin var selt sem forðahylki en við inntöku frásogast innihaldið yfir ákveðinn tíma og átti þannig að koma í veg fyrir háan topp á styrk innihaldsefnanna í blóði sem draga átti úr hættu á ávanabindingu lyfsins. Fólk komst hins vegar að því að hægt var að kremja hylkin og ná úr þeim duftinu og sniffa það eða leysa upp og sprauta sig með því. Á þann hátt aukast áhrif lyfjanna margfalt miðað við að þau séu tekin um munn en jafnframt aukast líkur á öndunarbælingu sem er meginorsök dauðsfalla.

Árið 2010 kynnti Purdue ný lyf sem erfiðara var að kremja og leysa upp og jafnframt kynntu bandarísk heilbrigðisyfirvöld nýjar leiðbeiningar um það hvernig læknar ættu að ávísa lyfjunum sem fólust í því að fyrsti kostur í meðhöndlun krónískra verkja ætti ekki sjálfkrafa að vera ópíóíðar heldur fremur aðrar nálganir eins og líkamsþjálfun eða hugrænar meðferðir. Í framhaldinu dró úr ávísunum ópíóíða í fyrsta skipti síðan 1990 og tíðni dauðsfalla vegna lyfjanna stóð í stað. Bakslagið var hins vegar þegar framboð ávísaðra lyfja dróst saman og þá hækkaði götuverð heróíns en um leið sáu salar sér leik á borði og juku framboð þess með skelfilegum afleiðingum. Á 25 árum hefur aukning dauðsfalla í Bandaríkjunum vegna ofskömmtunar af völdum bæði ávísaðra ópíóíða og heróíns aukist gríðarlega samhliða aukningu í ávísunum og aukins innflutnings á heróíni. Frá 1999 til 2011 þrefaldast tíðni dauðsfalla vegna ofskammtana af völdum ávísaðra ópíóíða, frá 2011 til 2015 helst tíðni nokkuð stöðug (um 16 þúsund dauðsföll á ári) en þá þrefaldast tíðni dauðsfalla vegna heróín ofskömmtunar (fer úr 7 þúsund í 20 þúsund).

Einblínt á lyfjagjöf hér á landi

Ólafur B. Einarsson verkefnastjóri lyfjamála hjá Embætti landlæknis.

Oxycontin er á markaði á Íslandi en sem dæmi um hversu sterk lyfin eru gæti ein 80 mg tafla valdið dauða vegna ofskömmtunar hjá þeim sem hefur ekki myndað þol gegn lyfinu. Þessi skammtur gæti hins vegar verið eðlilegur til verkjastillingar fyrir þann sem hefur myndað þol gegn lyfinu. Á fyrri hluta ársins 2017 fengu 43 einstaklingar ávísað yfir tvöföldum skammti af Oxycodone hvern dag sem er 22,8 prósent aukning frá 2016. Hafa ber í huga að margir þeir sem fá slíka skammta gætu verið að glíma við alvarleg veikindi eða í líknandi meðferð vegna krabbameins.

Ísland er með mestu notkun tauga- og geðlyfja af öllum Norðurlandaþjóðum. Árið 2014 var notkun þessara lyfja 28,4 prósent hærri hér á landi en í Svíþjóð sem kemur næst á eftir Íslandi. Innan lyfjaflokksins tauga- og geðlyf vega þunglyndislyf þyngst en einnig örvandi lyf við ADHD og svefnlyf en notkun verkjalyfja er jafnframt orðin mest hér á landi sem er umhugsunarverð þróun. Á Íslandi ríkir hvorki örvænting né upplausn líkt og í smærri samfélögum Bandaríkjanna, frekar má segja að hér á landi sé of mikið einblínt á lyfjagjöf sem ráðandi lausn á vandamálum einstaklinga.

Hluti umræðunnar í Bandaríkjunum var reiði vegna óhóflegra ávísana lækna á ávanabindandi lyf en í Bandaríkjunum hafa læknar ekki sama aðgang að upplýsingum og læknar hér á landi. Á Íslandi er bæði búið að samtengja sjúkraskrár og flestir læknar eru byrjaðir að nota lyfjagagnagrunn Embættis landlæknis. Því ætti að vera erfiðara fyrir fólk að verða sér úti um sömu lyf frá mörgum læknum á sama tíma ef læknar nýta sér þau tæki sem þeir hafa í boði.

Draga þarf úr misnotkun

Almennt eru íslenskir læknar varkárir þegar kemur að ávísunum sterkra verkjalyfja og eru engar vísbendingar sem benda til að heróín sé í einhverjum mæli á fíkniefnamarkaði hér á landi. Hins vegar glímir talsverður fjöldi einstaklinga við lyfjafíkn, þar á meðal sprautufíkn en 363 einstaklingar fengu meðferð við sprautufíkn á Vogi árið 2015. Langeftirsóttasta efnið meðal íslenskra sprautufíkla er methylfenidat en ópíóíðar koma næst á eftir.

Vandi vegna sprautufíknar hér á landi er langt frá því að vera í sama mæli og í Bandaríkjunum en fyrir liggja áskoranir til að draga úr almennri misnotkun og óhóflegri notkun ávanabindandi lyfja. Ekki sér fyrir endann á fíknivandanum í Bandaríkjunum og er lærdómurinn sá að mikið vinnst með því að koma í veg fyrir að fólk ánetjist en með aukningu ávísana aukast líkur á misnotkun. Sterk verkjalyf eru góð til síns brúks við bráðaverkjum en ekki endilega við krónískum verkjum. Svæsna króníska verki ætti sem oftast að meðhöndla af sérhæfðum verkjateymum.

Lyfjateymi Embættis landlæknis hefur bent á að langvarandi notkun lyfja eins og Parkodin forte, Oxycodone, Tramadól, Fentanyl, Ketogan og Contalgin felur í sér hættu á þolmyndun og ávanabindingu. Fyrir þá sem sniffa eða sprauta sig með þessum lyfjum eykst hættan á bráðri eitrun margfalt en margir þeirra sem deyja af völdum lyfjanna á Íslandi eru yngra fólk og dauðsföll þeirra eru reiðarslag fyrir vini og ættingja.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Þorsteinn Pálsson: Hvers vegna voru tillögur um afturköllun umsóknar svæfðar í tíð Sigmundar Davíðs og Guðlaugs Þórs?

Þorsteinn Pálsson: Hvers vegna voru tillögur um afturköllun umsóknar svæfðar í tíð Sigmundar Davíðs og Guðlaugs Þórs?
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sverð og skildir íslenskra hagsmuna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sverð og skildir íslenskra hagsmuna
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Minnisleysi ráðherrans

Óttar Guðmundsson skrifar: Minnisleysi ráðherrans
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Tvær konur berjast um fjöregg Framsóknar – styttist í flokksþing

Orðið á götunni: Tvær konur berjast um fjöregg Framsóknar – styttist í flokksþing
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Segir Sjálfstæðisflokk og Framsókn hafa gert andstöðu við atkvæðagreiðslur að sérstöku baráttumáli

Segir Sjálfstæðisflokk og Framsókn hafa gert andstöðu við atkvæðagreiðslur að sérstöku baráttumáli
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Kolla hlustaði á tvo áhyggjufulla Sjálfstæðismenn tala um flokkinn sinn – „Voru þeir að gera nokkuð sem þeim féll greinilega þungt“

Kolla hlustaði á tvo áhyggjufulla Sjálfstæðismenn tala um flokkinn sinn – „Voru þeir að gera nokkuð sem þeim féll greinilega þungt“