Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra og þingmaður Bjartrar framtíðar segir það vera vonbrigði að flokkur hennar sé að mælast með lágt fylgi í skoðanakönnunum en fylgið sveiflist og það sé gaman þegar tölurnar séu háar.
Í könnun MMR sem birtist í gær mælist Björt framtíð með 2,4% fylgi sem dugar ekki til þess að ná manni inn á þing ef kosið yrði í dag. Annar stjórnarflokkurinn, Viðreisn, mælist svo með 4,7%. Athygli vekur þó að fleiri styðja ríkisstjórnina en í síðustu könnun og fleiri styðja Sjálfstæðisflokkinn en áður. Björt segir í samtali við Fréttablaðið í dag að það eina sem stjórnmálamenn geti gert sé að tala minna og gera meira:
Það er mitt mottó, það er bara þannig að það er ekki það sem maður segir heldur það sem maður gerir sem að mínu mati skilgreinir hvort stjórnmálamenn séu góðir í sínu starfi. Björt framtíð mun að loknu þessu kjörtímabili leggja verk sín í dóm kjósenda.