Það vakti nokkra athygli í gær þegar grein eftir Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra undir yfirskriftinni „Má fjármálaráðherra hafna krónunni“ birtist í Fréttablaðinu. Sitt sýnist hverjum um skrif ráðherrans og í svargrein sagði Björn Bjarnason Benedikt „fjármálaráðherra á evru-villigötum“. Nú hefur Lilja Alfreðsdóttir fyrrum utanríkisráðherra og þingkona Framsóknarflokks svarað Benedikt í grein í Fréttablaðinu undir yfirskriftinni „Leiksýning fjármálaráðherra“.
Að sögn Lilju stendur íslensk hagstjórn frammi fyrir tveimur gríðarstórum verkefnum í náinni framtíð, „að byggja upp traust á fjármálakerfinu og hins vegar að endurskoða peningastefnuna“. Til þess að þetta takist segir Lilja nauðsynlegt að gera breytingar, meðal annars að sameina eftirlitsstarfsemi Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið.
Hún gagnrýnir nýja eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki og segir enga framtíðarsýn að finna þar. Þar komi fram að selja eigi hlut ríkisins í bönkunum, fyrir utan 30-40% hlut í Landsbankanum. Fyrir þessu segir hún að séu „engin haldbær rök“ og fyrir því er að mati Lilju einföld skýring, það vanti framtíðarsýn.
Til þess að stefnumótun sé farsæl og trúverðug þarf bæði skýra framtíðarsýn og góðan undirbúning. Fjármála- og efnahagsráðherra hefur hafnað gjaldmiðli þjóðarinnar án þess að vera búinn að undirbúa málið nokkuð innan ríkisstjórnarinnar. Skipuð var verkefnastjórn um endurmat á peningastefnu þar sem gengið er út frá því að umgjörð krónunnar verði bætt. Óskað hefur verið eftir samvinnu og sátt um vinnu þessarar verkefnastjórnar. En hvernig er það hægt þegar fjármála- og efnahagsráðherra ætlar sjálfur ekki að leyfa verkefnastjórninni að vinna í friði og er kominn með fyrirframgefna niðurstöðu? Hvað mun ráðherrann gera ef verkefnastjórnin kemst að annarri niðurstöðu en ráðherrann? Er Viðreisn þá sætt í ríkisstjórninni? Eða er ekkert að marka orð fjármála- og efnahagsráðherra þegar hann tekur afstöðu í grundvallarmáli eins og þessu? Það er fáheyrt að fjármálaráðherra þjóðríkja tali gegn eigin gjaldmiðli. Ef mark er tekið á ráðherranum þá veikist gjaldmiðillinn og almenningur verður fyrir kjararýrnun,
Skemmst er að minnast þess þegar Benedikt ætlaði að taka 10 þúsund króna seðilinn úr umferð án undirbúnings og var rekinn til baka með það á örskotsstundu segir Lilja.
Þjóðin á betri vinnubrögð og undirbúning skilið.