Èric Lluent, katalónskur blaðamaður sem hefur verið búsettur hér á landi um árabil, segir að Íslendingar ættu að líta sér nær þegar þeir kenna ferðamönnum um allt sem aflaga fer. Hann segir að ástæða þess að ferðamenn geri þarfir sínar á víðavangi sé fyrst og fremst vegna skorts á salernum. Þetta kemur fram í pistli á vef Lluent, El Faro de Reykjavík.
Undanfarin ár hefur verið fjallað um ferðamenn sem geri þarfir sínar á óæskilegum stöðum, sumarið 2015 var til að mynda fjallað um ferðmenn sem gerðu þarfir sínar í garði fólks í Jökuldal, á Hafnarstéttinni á Húsavík og í dag var fjallað um ferðamenn sem gerðu þarfir sínar í Hallargarðinum í Reykjavík.
Lluent segir sumir Íslendingar telji að ástæða þess að það hafi færst í aukanna að ferðamenn geri þarfir sínar á víðavangi sé vegna ódýrari flugferða til Íslands.
Fátækt fólk gerir viðbjóðslegan hlut. Frekar miklir stéttafordómar,
skrifar Lluent. Hann segir jafnframt að í huga íslenskra fjölmiðla séu ferðamenn viðbjóðslegir þar sem sumir þeirra ganga örna sinna utandyra. Lluent telur enn fremur að í öðrum tilvikum séu ferðamenn ranglega sakaðir um misbresti.
Nefnir hann sem dæmi frétt sem birtist á dögunum í Reykjavík Grapevine þar sem greint var frá því að ferðamenn væru að stela fágætum silfurbergskristölum úr Helgustaðanámu í Reyðarfirði. Lluent telur að það ekki sannað að ferðamenn hafi verið þar á ferð þó Lára Björnsdóttir, landvörður í Fjarðabyggð, fullyrði annað.
Lluent segir að ríkisstjórnin þurfi að byggja fleiri klósett og þá myndi vandamálið hverfa. Hann segir jafnframt að þau klósett sem séu til staðar séu oft algjörlega óviðunandi, þau séu jafnvel það skítug að þau séu ekki hæf til notkunar. Hann gagnrýnir einnig langar biðraðir á klósettin og það sé rukkað fyrir notkun. Lluent segist ekki vera að mæla því bót að kúka á víðavangi heldur þurfi Ísland að endurskipuleggja ferðamannaiðnaðinn til lengri tíma litið. Skítaverknaður ferðamanna séu afleiðing skammtímahugsunar.