Undanfarnar vikur hefur mikið verið rætt um álagningu á Íslandi og hvort Íslendingar séu að verðleggja sig af markaði. Í júní olli 1.190 króna rúnstykki með skinku og osti nokkru fjaðrafoki, en rúnstykkið reyndist ciabatta-brauð. Í dag hefur svo verið fjallað um tepoka sem kostuðu 400 krónur stykkið á hóteli á Austurlandi.
Um helgina fór á flug mynd af kvittun úr sjoppu á vinsælum ferðamannastað á Íslandi, á myndinni sést að viðkomandi hefur keypt tvær kókflöskur, sjö vatnsflöskur og tvö súkkulaðistykki, alls kostaði þetta 5.410 krónur.
Egill Helgason fjölmiðlamaður er nú staddur á Grikklandi, ákvað hann að skoða hvað þessar vörur kosta í sjoppu á vinsælum ferðamannastað þar:
Nú skal tekið fram að laun eru lægri á Grikklandi, kaupmáttur minni, en við erum samt á vinsælum ferðamannastað þar sem verðlag er eitthvað hærra en það myndi vera þar sem aldrei sjást túristar,
segir Egill á bloggi sínu hér á Eyjunni. Egill fór í sjoppu sem er opin fram á kvöld og keypti eftirfarandi vörur:
Ég fór í sjoppuna sem er opin hér fram á kvöld. Þetta var frekar einfalt.
Kók, hálfur líter, kostar 1 evru.
Vatnsflaska, hálfur líter, kostar 50 sent.
Súkkulaðistykki, Lacta, mjög sambærilegt við Nóa Síríus, kostar 1.50 evrur.
Verðið á þessum vörum væri semsagt 8,50 evrur í Grikklandi, það er rétt um 1000 krónur. En í téðri sjoppu á Íslandi er verðið semsagt meira en fimm sinnum hærra, 5410 krónur.