Fluglestin sem verður á milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar kemur til með að kosta 85 til 87 milljarða í heild, þegar hún verður kláruð á næsta áratug mun fólk geta komist frá höfuðborginni til Keflavíkur á rúmum 20 mínútum. Borgarráð Reykjavíkur samþykkti í gær samstarfssamning um lest á milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar, hefur það þegar verið samþykkt af bæjaryfirvöldum í Garðabæ og á Suðurnesjum. Málið verður brátt tekið fyrir hjá bæjaryfirvöldum í Kópavogi og Hafnarfirði.
Runólfur Ágústsson framkvæmdastjóri Fluglestarinnar þróunarfélags sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að miðað sé við að endastöðin sé á BSÍ en hugsanlega verið stoppistöð í Smáralind. Lestin fer í göngum frá Staumsvík og næsta skref sé að gera jarðfræðirannsóknir. Göngin eiga að vera á 50 til 160 metra dýpi undir höfuðborginni, gerir Runólur ráð fyrir að rannsóknirnar taki rúmlega þrjú ár. Lestin á svo að vera ofanjarðar frá Straumsvík til Keflavíkur.
Runólfur gerir ráð fyrir að stök ferð til Keflavíkur muni kosta um 5 þúsund krónur:
Ódýrara verður ef keyptar eru ferðir fram og til baka. Svo er gríðarlegur fjöldi sem vinnur á flugvellinum og býr í Reykjavík og öfugt. Þeir farþegar myndu njóta allt annarra kjara.