Börn sem munu eiga heima í Vogabyggð sem fyrirhugað er að byggja munu þurfa að ferðast nokkra kílómetra til að komast á nálægasta íþróttasvæði. Í óformlegri mælingu Stefáns Pálssonar sagnfræðings kemur í ljós að börn sem kæmu til með að búa í nýja hverfinu munu þurfa að ferðast rúmlega fjóra til fimm kílómetra til að komast á næsta íþróttasvæði. Í loftlínu er stysta fjarlægðin á Víkingssvæðið í Fossvoginum, rúmir þrír kílómetrar en þá þyrftu börnin að komast yfir Reykjanesbrautina og Vesturlandsveg:
Kalt mat: annað hvort þarf íþróttasvæði í þetta hverfi fyrir lítið félag eða útstöð stærra liðs eða að börnin þarna verða ekki í íþróttum að neinu marki,
segir Stefán á Fésbókarsíðu sinni. Engum blöðum þarf að fletta um ágæti íþróttaiðkunar en í ný rannsókn Þórdísar Gísladóttir nýdoktors í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands sýndi að ungmenni sem stundi íþróttir í íþróttafélagi hafi jákvæðara viðhorf til lífsins en önnur ungmenni.
Friðjón: Nágrannasveitarfélögin standa sig mun betur – Líf: Ósanngjörn gagnrýni
Undir innlegg Stefáns sköpuðust harðar umræður milli Friðjóns Friðjónssonar almannatengils og Líf Magneudóttur forseta borgarstjórnar. Dregur Friðjón í efa að stuðningur borgarinnar sé eins mikill og nágrannasveitarfélaganna, bæði fjárhagslegur og ekki síður móralskur:
Reykjavíkurborg hefur beinlínis sýnt íþróttafélögum andúð. Bara lítið dæmi þá er ekki minnst á íþróttastarf á vef borgarinnar. Það er ekki hluti af mannlífi í borginni, ekki hluti af valkostum fyrir ungt fólk og ekki hluti af þjónustu. Skipulagt íþróttastarf er eitthvað sem borgarkerfið hefur engan áhuga á,
segir Friðjón. Líf tekur ekki undir með honum og segir að borgin geri samninga við íþróttafélög upp á rúma 2 milljarða á þessu ári:
„Það fer rúmlega hálfur milljarður í frístundakortið til að niðurgreiða margs konar íþróttir og tómstundir handa börnum að frátöldum öllum þeim fjármunum sem fara í að byggja og viðhalda íþróttamannvirkjum út um alla borg. En já – ráðamönnum er greinilega skítsama.“
Friðjón segir að Kópavogur, Mosfellsbær, Garðabær, Seltjarnarnes og Hafnarfjörður standa mikið, mikið betur á bak við íþróttastarf barna og ungmenna en Reykjavík bæði til samans og hlutfallslega, skipti þá ekki máli hvers lags íþrótt sé um að ræða. Í Kópavogi búa um 35 þúsund manns, þar fara 3,5 milljarðar í íþróttastyrki og mannvirki. 1,6 milljarður í Garðabæ þar sem búa um 15 þúsund manns , ef Reykjavík myndi setja sömu upphæð per haus yrðu það rúmir 13 milljarðar. Líf segir gagnrýni Friðjóns ósanngjarna, sérstaklega í ljósi þeirra verkefna sem borgin stóð fyrir eftir hrun:
Vissulega hallar á sum íþróttafélög og margt má gera betur. Það er hins vegar hugað vel að þessum málum í Reykjavík að flestöllu leyti. Fókusinn er alltaf á íþróttastarf barna og þar leggur borgin sig fram við það að auka bæði framboð og fjölbreytni. Fjöldi battavalla er ekki endilega mælikvarði á það sem vel er gert og svo má ekki gleyma því að íþróttafélögin eru líka með þetta á sinni könnu og vonandi áfram í góðu samstarfi við borgina. Ég hef annars verið með barn í KR í tíu ár og tek eftir ýmsu sem þar mætti bæta – en svo hef ég líka farið í önnur íþróttafélög og kynnt mér aðstöðuna og mörg þeirra standa mun betur. Það er eitthvað sem þarf að huga að – að jafna aðstöðumuninn.