Skipa þarf fjölskipaða fagstjórn yfir Landspítalanum sem fari með æðsta vald innan spítalans, það dragi úr völdum forstjóra og skapi traust milli stjórnenda og starfsfólks spítalans. Þetta kemur fram í grein prófessora við Landspítala og læknadeild Háskóla Íslands sem birt er í Morgunblaðinu í dag, höfundar hennar eru Pálmi V. Jónsson, Sigurður Guðmundsson, Steinn Jónsson, Björn Rúnar Lúðvíksson formaður prófessoraráðs, Helga Ágústa Sigurjónsdóttir og Guðmundur Þorgeirsson.
Höfundar segja mikilvægi spítalans fyrir heilbrigðis- og menntakerfið í landinu augljóst, þar fer fram stærstur hluti sérhæfðrar læknaþjónustu og er spítalinn miðstöð kennslu og rannsókna í heilbrigðisvísindagreinum. Íslensk heilbrigðisþjónusta hefur náð góðum árangri á alþjóðlegum mælikvarða líkt og kom fram í breska læknatímaritinu Lancet nýverið, því er fagfólki að þakka:
Þegar sjúkrahús hér á landi og erlendis fóru stækkandi var víða litið á það sem lykilatriði að fulltrúar fagfólks ættu sterka aðkomu að stjórnkerfi þeirra. Í tilfelli Landspítalans var formaður læknaráðs kosinn af læknum og var fulltrúi lækna í stjórn spítalans. Einnig var tryggt að starfsmenn ættu fulltrúa í stjórnarnefnd ríkisspítalanna því formaður starfsmannaráðs átti þar sæti. Sambærilegt fyrirkomulag var til staðar á Borgarspítalanum. Sterk stjórn talar máli sjúkrahússins út á við en beinir einnig áhrifum sínum inn á við og stuðlar að því að allir lykilþættir starfseminnar njóti sín; þjónusta, menntun og vísindi,
segir í greininni. Það breyttist hins vegar um aldamótin þegar sjúkrahúsin í Reykjavík voru sameinuð, þá færðist öll stjórnunarábyrgð til framkvæmdastjórnar og forstjóra:
Síðan þá hafa fagstéttirnar á spítalanum í reynd ekki átt neina beina aðkomu að yfirstjórn spítalans en öll ákvarðanataka og ábyrgð var færð í hendur forstjóra, sem er ráðinn af heilbrigðisráðherra. Forstjóranum er falið að skipa alla sína næstu stjórnendur í framkvæmdastjórn sem hefur bæði stefnumótandi, eftirlits-, framkvæmdar- og rekstrarhlutverki að gegna. Undirrituð hafa ekki vitneskju um að nokkrum forstjóra eða framkvæmdastjórn sé falið svo margþætt og valdamikið hlutverk á háskólasjúkrahúsum í nágrannalöndum okkar.
Einnig hafi starfsmenn sem starfi á bæði Landspítala og við Háskóla Íslands enga aðkomu að stjórnun spítalans og því hafi orðið skil á milli þessara tveggja stofnana. Segja höfundar að óánægja með þetta fyrirkomulag fari vaxandi meðal starfsfólks:
Í umfangsmiklum starfsumhverfiskönnunum hefur komið fram mikil almenn óánægja með stjórnkerfi Landspítalans meðal allra starfsstétta hans. Fagfólkið upplifir sig langt frá stjórnendum og jafnvel forstöðumenn fræðigreina hafa litla aðkomu að stefnumótandi ákvarðanatöku. Því teljum við ljóst að núverandi stjórnkerfi Landspítala hafi ekki reynst vel og að brýnna úrbóta sé þörf. Vandinn er ekki bundinn við persónur heldur er hann kerfislægur og liggur í því hvernig kerfið er uppbyggt í kringum óskorað vald forstjórans.
Þar að auki sé viðvarandi neikvæð umræða um Landspítalann að skaða ímynd hans, það hafi neikvæð áhrif á nýliðun sem koma þarf í veg fyrir við fyrsta tækifæri. Leggja prófessorarnir til eftirfarandi tillögur:
Við leggjum til að æðsta vald innan Landspítala verði í höndum fjölskipaðrar stjórnar með sterkri aðkomu fagstéttanna. Stjórnin hafi eftirfarandi þrjú hlutverk: (a) að ráða forstjóra, (b) að hafa eftirlit með störfum forstjóra og (c) að móta heildarstefnu fyrir stofnunina. Tillaga þessi er í anda góðra stjórnarhátta í rekstri fyrirtækja og stofnana, þar sem áhersla er lögð á aðgreiningu á stefnumótunarvaldi og framkvæmdavaldi.
Öflug stjórn skapar traust
Greint var frá því í lok maí síðastliðnum að meirihluti fjárlaganefndar hvatti til þess að skoðaðir yrðu kostir þess að skipa stjórn yfir Landspítalann, prófessorarnir telja eðlilegt að heilbrigðisráðherra skipi stjórnina en mikilvægt sé að stjórnarmenn séu þar vegna fagþekkingar en ekki sem fulltrúar stjórnmálaflokka. Einn stjórnarmaður væri fulltrúi lækna, annar fulltrúi hjúkrunarfræðinga, Háskóli Íslands væri með fulltrúa, einn frá starfsmannaráði, aðrir stjórnarmenn gætu svo verið með reynslu úr stjórnsýslu eða atvinnulífinu:
Með skipan stjórnar yfir Landspítala verður að vissu leyti dregið úr völdum forstjóra, en hlutverk hans yrði skerpt og starfsskilyrði bætt, með þátttöku öflugrar stjórnar. Öflug stjórn gæti gegnt mikilvægu hlutverki við að skapa traust milli stjórnenda og starfsfólks annars vegar og gagnvart Alþingi og ríkisstjórn hins vegar. Við teljum þetta nauðsynlegt í ljósi þess álagsprófs sem núverandi skipulag hefur gengið ítrekað í gegnum á síðustu árum, þar sem veikleikar þess hafa berlega komið í ljós. Við teljum mikilvægt að fulltrúar fagstéttanna verði valdir til setu í stjórninni með lýðræðislegum hætti og miklu skiptir að tryggja aðkomu almennings og háskólasamfélagsins að stjórn Landspítalans.