Benedikt Jóhannesson fjármála- og efnahagsráðherra. Mynd/Sigtryggur Ari
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra segir að ef ekki væri fyrir Viðreisn væri enginn að skoða breytta peningastefnu. Enginn stjórnmálaflokkur tali nú gegn stöðugra gengi og hans flokkur sé eini flokkurinn sem hafi bent á aðra leið en að skipta um gjaldmiðil til að ná því.
Í viðtali við Kjarnann í dag segir fjármálaráðherra að hann myndi ekki slá hendinni á móti því að skipta um gjaldmiðil. Alþekkt sé að hann hafi þá skoðun að Íslandi yrði best borgið með því að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Hinn pólitíski raunveruleiki sé þó sá að það er ekki gerlegt sem stendur.
„Ég hef talið að myntráð gæti orðið ásættanlegri lausn en sú sem við búum við. Það er ekkert þannig að maður geti sagt að einhver lausn leysi allan okkar vanda. En ef við værum með stöðugra gengi þá væri meiri stöðugleiki í atvinnulífinu.