„Þrjátíu og sjö ára gamall þingmaður heldur jómfrúarræðu. Hann talar um að á Íslandi sé umfang hins opinbera stórt ef litið er til heildarútgjalda og lífeyrisgreiðslur dregnar frá.
Tuttugu og sjö ára gömul þingkona heldur jómfrúarræðu. Hún talar um að á Íslandi sé umfang hins opinbera stórt ef litið er til heildarútgjalda og lífeyrisgreiðslur dregnar frá.“
Þannig hefst pistill eftir Pawel Bartoszek þingmann Viðreisnar. Þar fjallar hann um muninn á þeirri útreið sem konur og karlar verða fyrir ef þau fjalla um umdeild mál. Pistilinn skrifaði Pawel í kjölfar þeirra útreiðar sem Nichole Leigh Mosty þingmaður Bjartrar framtíðar hefur orðið fyrir. Pawel setur hlekk á grein þar sem fjallað er á Stundinni um Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttir ritara Sjálfstæðisflokkinn. Í kommentum hefur Áslaug fengið yfir sig gusu. Þá er frægt þegar Áslaug sagði: „Ég trúi því að Sjálfstæðismenn sjái til þess að við getum keypt hvítvín með humrinum.“
Pawel segir að nokkrum mánuðum síðar hafi allir gleymt ræðu þingmannsins. Ræða þingkonunnar sé hins vegar rifjuð upp aftur og aftur og reynt að mála hana sem vitleysing sem lepur upp dellu. Pawel segir:
„Það er góð og gild umræða að ræða um hvað mælikvarðar séu bestir til að meta umfang ríkisreksturs. En þingkonan greindi frá þeim mælikvörðum þegar eftir því var leitað, hún gat heimilda sinna. Þetta snerist því ekki um að hún hafi lesið vitlaust eða rangtúlkað. En þannig er það matreitt og kommentakerfin eru sammála. Konan er bersýnilega nautheimsk.“
Segir Pawel að greinin á Stundinni um Áslaugu sé ekki sú versta sem birst hafi um konur í pólitík. „Langt því frá. En hún er dálítið dæmigerð. Fólk kallar mig (því ég er hinn þingmaðurinn) ekki oft vitlausan. Ég er óheiðarlegur og illa innrættur en sjaldan vitlaus. Það límist einhvern veginn verr á karla að vera vitlausir.“
Þá vitnar Pawel í blaðamanninn Jon Ronson sem fjallar að sögn þingmannsins um fólk sem lendir í „skítastormi.“
„Þar var nefnt hvernig allur skíturinn sem konur lenda í verður alltaf miklu svæsnari. Körlum er óskað atvinnumissi. Konum? Að þeim sé nauðgað eða að þær missi börnin sín. Árásir á konur eru persónulegri. Það er oftar ráðist á útlit þeirra eða gáfur.“