Fylgishrun blasir við stjórnarflokkunum Viðreisn og Bjartri framtíð, myndi hvorugur flokkurinn ná manni inn á þing ef kosið væri í dag. Samkvæmt könnun Fréttablaðsins í dag myndi Viðreisn fá 3,1 prósent atkvæða og Björt framtíð 3,8 prósent. Fylgi Sjálfstæðisflokksins eykst og myndi hann fá 32 prósent atkvæða og verða stærsti flokkurinn á þingi.
Vinstri grænir yrðu næst stærsti flokkurinn á þingi með 27,3%, Píratar standa nánast í stað frá kosningum með 14,3%. Samfylkingin bætir við sig og myndi fá 8,8% atkvæða. Framsóknarflokkurinn yrði minnsti flokkurinn á þingi, með 7% atkvæða.
Könnunin var gerð dagana 20. og 21. mars. Hringt var í 1.242 manns þar til náðist í 791. Svarhlutfallið var 63,7% og tóku 58,1% afstöðu. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá og skiptust jafnt eftir kyni, og hlutfallslega eftir búsetu og aldri.