Þráinn Bertelsson rithöfundur og fyrrverandi þingmaður segir að Ísland gæti orðið fyrsta þjóðin til að útrýma í sér mennskunni. Segir hann í pistli á vefsíðu sinni að ef geimverur væru að fylgjast með fréttum og fjölmiðlum á jörðinni þá yrði það niðurstaða þeirra að Ísland væri hættulegur og erfiður staður.
Tilefni orða Þráins er alþjóðlegur dagur fólks með Downs-heilkenni í gær, birtist þá frétt á Stundinni þar sem kemur fram að fóstrum með Downs sé hvergi eytt eins markvisst og hér á landi, þar kemur einnig fram að Downs-heilkennið sé hvorki sjúkdómur né vansköpun, þrátt fyrir að vera sett undir þá skilgreiningu í lögum um fóstureyðingar.
Segir Þráinn þessa frétt skelfilega staðfestingu á að við Íslendingar, sem hann kallar Íslinga, sem þjóð séum ekki stödd á góðum stað í tilverunni:
„Það er svo margt annað sem gæti verið betra og skynsamlegra fyrir okkur og aukið hamingju og velferð okkar og alþjóðlegan orðstír meira en að setja heimsmet í að eyða fóstrum barna með downsheilkenni,“
segir Þráinn. Bætir hann svo við:
Þjóð sem hugsar jafnmikið um efnisleg gæði og við Íslingar gerum um þessar mundir og að sama skapi lítið um að ávaxta okkar andlegu sjóði, mannúð, menningu og tungu gæti orðið fyrir því óláni að verða fyrsta þjóð í heimi sem tekst að útrýma í sér mennskunni.