„Það er mjög ánægjulegt að deilunni sé lokið, þetta hefur verið ein lengsta vinnudeila Íslandssögunnar, ekki síður hitt að þetta er að verða erfiðara og erfiðara fyrir þjóðarbúið að verkfallið hefði haldið áfram og þess vegna ber ég mikla virðingu fyrir samninganefndum útgerðarmanna og sjómanna fyrir að hafa klárað málið án aðkomu ríkisins á endanum.“
Þetta sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Vilhjálmur Birgisson formaður verkalýðsfélags Akraness hefur sagt að Þorgerður Katrín hafi hótað deiluaðilum í kjaradeilu sjómanna og útgerðarmanna lagasetningu seint í gærkvöldi, skömmu áður en samningar tókust. Hún segir það af og frá:
„Það er eðlilegt og hefði verið ábyrgðarleysi að minni hálfu á þessum tímapunkti að vera ekki tilbúin með lögin en það er hins vegar þannig að menn ákváðu einfaldlega í húsi ríkissáttasemjara að leysa þetta sjálfir sem er mun betra. Það var aldrei þannig að ég segði að það væri verið að fara í lagasetningu á morgun en það blasti við að það þurfti einfaldlega að vera tilbúin með plan a, plan b og plan c. Annað hefði verið ábyrgðarlaust.“
Formaður Sjómannafélagsins staðfestir frásögn Vilhjálms
Vilhjálmur segir hins vegar á Fésbók að Jónas Garðarsson formaður Sjómannafélags Íslands staðfesti frásögn sína, vitnar hann í orð Þorgerðar Katrínar frá því í morgun og segir:
Á það bara að vera alveg sjálfsagt, eðlilegt og viðurkennt í íslensku samfélagi að ráðherra í ríkisstjórn komi ekki fram af heiðarleika og segi satt og rétt frá og það í jafn risastóru hagsmunamáli og kjaradeila sjómanna var?
Ég skal fúslega viðurkenna að ég er bara ekki þannig úr garði gerður að ég taki þátt í meðvirkni, þöggun og óheiðarleika og því er nauðsynlegt að upplýsa hvað þarna gerðist og ég trúi ekki öðru en þingmenn taki þetta mál til skoðunar og umfjöllunar á hinu háa Alþingi,
segir Vilhjálmur. Ítrekar Vilhjálmur að hann sé að segja satt og rétt frá því sem gerðist og því til staðfestingar birtir hann tilkynningu frá Sjómannafélaginu:
Af gefnu tilefni.
Vegna samskipta sjómanna við sjávarútvegsráðherra og viðtala við Vilhjálm Birgisson formanns VLFA um málið, þar sem sjómönnum var hótað lagasetningu til að stöðva verkfall sjómanna, skal tekið fram að formaður Sjómannafélags Íslands Jónas Garðarsson var á umræddum fundi með sjávarútvegsráðherra. Hann staðfestir að í öllum atriðum er frásögn Vilhjálms af fundinum rétt.