fbpx
Föstudagur 25.júlí 2025
Eyjan

Ný meðferðarstöð SÁÁ á Kjalarnesi: Stærsta heilbrigðisframkvæmdin í dag

Ritstjórn Eyjunnar
Laugardaginn 18. febrúar 2017 14:38

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ljósm. Ólafur Kristjánsson.

Það er kannski tímanna tákn að félagasamtök, en ekki ríkið, standa fyrir mestu einstöku fjárfestingu í heilbrigðiskerfinu núna.

Loftmyndin hér til hliðar var tekin í síðustu viku og sýnir húsakostinn sem nú er í Vík á Kjalarnesi. Vinstra megin eru eldri byggingarnar frá 1990 sem nú verða gerðar upp. Hægra megin eru svo nýju byggingarnar sem hafa risið á síðustu tíu mánuðum. Í baksýn eru Móar og fjær má sjá yfir sundin til Reykjavíkur. Þar verður stutt að fara í framtíðinni með nýrri Sundabraut.

Þetta er sjálfsagt stærsta einstaka framkvæmdin í íslenskri heilbrigðisþjónustu nú um stundir.

Arnþór Jónsson formaður SÁÁ er greinilega stoltur þar sem við stöndum í nýbyggingu sem er óðum að taka á sig mynd sem ný eftirmeðferðarstöð samtakanna í Vík á Kjalarnesi. Fjöldi iðnaðarmanna eru á þönum. Það er verið að setja upp milliveggi, einangra, koma fyrir loftræstikerfum og áfram á telja. Aðrir eru að setja í glugga og klæða þakið. Eftir nokkra daga verður haldið reisugildi.

Við ætlum að halda upp á það. Framkvæmdir hafa gengið mjög vel og eru eftir áætlun.

Arnþór segir að Vík í nýrri mynd eigi að taka til starfa í lok ágústmánaðar.

 

Eftirmeðferðin sameinuð í Vík

Vegfarendur sem fara um Vesturlandsveg hafa sjálfsagt tekið eftir því að stór hús eru að rísa þarna í Vík á Kjalarnesi. Formaður SÁÁ útskýrir nánar hvað er að gerast:

Arnþór Jónsson formaður SÁÁ í nýbyggingunni.

Við erum að byggja yfir eftirmeðferðina. Stór hluti hennar hefur verið að Staðarfelli í Dölum síðan 1980. Hérna í Vík byggðum við 800 fermetra hús á landi sem við eigum og tókum í notkun í árslok 1990. Í Vík hafa á hverjum tíma verið um 20 konur og sjö eldri karlar í eftirmeðferð eftir dvöl á sjúkrahúsinu á Vogi. Yngri karlarnir hafa farið á Staðarfell. Nú sameinum við þetta allt hérna í Vík. Hér verða pláss fyrir 60 sjúklinga á hverjum tíma. Það verða þá um 40 karlar og 20 konur. Þetta er sá fjöldi og þau kynjahlutföll sem alltaf hafa verið hjá okkur í eftirmeðferðum. Við erum ekki að fjölga hjá okkur en eflaust að bæta meðferðarferlið mjög mikið. Sem fyrr verður eftirmeðferðin einnig kynjaskipt. Þó að það verði bæði konur og karlar hér í Vík þá verður alveg aðskilið milli kynjanna. Hér verður ró og næði en samt stutt frá höfuðborginni. Útivistarmöguleikar hér í kring eru mjög góðir. Það mun fara vel um fólk.

 

Margra milljarða framlag SÁÁ

Arnþór Jónsson dregur enga dul á að með framkvæmdunum í Vík sé verið að lyfta miklu Grettistaki til framtíðar. Fasteignirnar í Vík verða alfarið í eigu SÁÁ og standa á landi í eigu samtakanna. Auk þess að byggja nýju húsin þá verða eldri byggingar í Vík sem teknar voru í notkun í árslok 1990 algerlega endurnýjaðar og endurbyggðar að hluta.

Ég kýs að segja að þegar upp verður staðið í framkvæmdum hér þá sé SÁÁ með algerlega nýjan húsakost hér í Vík. Þessar framkvæmdir kosta alls um 1.200 milljónir króna. Það er auðvitað miklir fjárfesting. Sjúkrareksturinn hjá okkur var rekinn með 265 milljón króna halla í fyrra. Það er vegna þess að ríkið kaupir bara 1.530 innlagnir á Vog.Við erum hins vegar með 2.200 innlagnir. Við erum því að veita meiri heilbrigðisþjónustu heldur en hið opinbera greiðir fyrir. Við fáum aldrei neitt á aukafjárlögum en verðum að brúa bilið með frjálsum framlögum frá velunnurum og eigin fjáröflun svo sem álfasölunni. Það eru allar klær úti.

Formaður SÁÁ segir að með uppbyggingunni í Vík sé verið að skapa mikla og dýrmæta viðbót fyrir heilbrigðiskerfið á Íslandi.

Inni í nýbygginunni þar sem matsalurinn verður meðal annars. Lyfta verður að sjálfsögðu í húsinu og mjög gott aðgengi fyrir fatlaða. Allir vistmenn verða í eins manns herbergjum. ÍSTAK er verktaki framkvæmdanna en byggingarnar eru hannaðar af THG arkitektum.

Þegar allt verður talið þá munum standa þannig að SÁÁ hefur lagt inn fasteignir og aðbúnað inn í íslenskt heilbrigðiskerfi, sem nemur um þremur milljörðum króna þegar samtökin halda upp á afmæli sitt nú í haust. Þetta verða þá sjúkrahúsið Vogur, eftirmeðferðastöðin hér í Vík og göngudeild og skrifstofur í Efstaleiti. Þar að auki höfum við frá árinu 1996 látið um þrjú þúsund milljónir, á verðlagi þessa árs, renna í sjúkrareksturnn sjálfan, vegna þess að hið opinbera greiðir ekki nema fyrir hluta þjónustunnar sem við veitum. Allt eru þetta fjármunir sem safnað hefur verið með Álfasölu, félagsgjöldum og öðrum fjáröflunarverkefnum á vegum samtakanna.

 

Stórafmæli í haust

Afmælið sem Arnþór minnist á er þegar SÁÁ halda upp á að 40 ár verða liðin frá stofnun samtakanna þann 1. október á þessu ári.

Þessi lofmynd er tekin beint ofan á meðferðarstöðina í Vík. Alls er um að ræða byggingar sem hafa 3.500 fermetra að gólffleti. Ljósm. Ólafur Kristjánsson.

Samtökin voru stofnuð formlega með stórum fundi í Háskólabíói 1. október 1977. Við erum búin að taka Háskólabíó frá núna þennan sama dag í haust og þar verður stór hátíðarfundur með spili og söng. Síðan verður efnt til stórrar alþjóðlegrar þriggja daga ráðstefna um fíknmál í Reykjavík. Þangað koma margir af fremstu sérfræðingum heims á þessu sviði. Ráðstefnan hefur vinnuheitið „Frá hugtaki til veruleika“ og mun öðrum þræði fjalla um hvernig fíknlækningar urðu að sérgrein í læknisfræði á starfstíma SÁÁ.

Tímamótin hjá SÁÁ verða því mörg á árinu 2017. Auk þess að opna nýja Vík og halda upp á fertugsafmælið þá mun Þórarinn Tyrfingsson fyrrum formaður og yfirlæknir SÁÁ til áratuga hætta störfum og fara á eftirlaun sjötugur að aldri.

Við erum búin að auglýsa stöðuna hans,

segir Arnþór. Þórarinn er sjálfsagt að öðrum ólöstuðum sá sem á einna stærstan heiðurinn að því að samtökin hafa náð jafn langt og raun ber vitni.

Það er eiginlega einsdæmi í veröldinni að svona meðferðarstofnanir í sjálfseignarformi hafi náð að starfa svona lengi.

 

Sögulok á Staðarfelli

Önnur tímamót sem óneitanlega munu sjálfsagt fela í sér ákveðinn söknuð er að SÁÁ mun hætta allri starfsemi á Staðarfelli í Dölum. Þar með lýkur 37 ára sögu samtakanna þar.

Við förum frá Staðarfelli 1. september. Við vitum ekki hvað tekur við þar. Staðarfell er flottur staður og þar er gott að vera. Gamla húsmæðraskólahúsið þar er hins vegar dýrt í rekstri. Það uppfyllir alls ekki kröfur í nútíma heilbrigðisþjónustu. Aðgengi er erfitt, húsið á mörgum hæðum en engin lyfta og brunaöryggi áfátt þar sem allt húsið er eitt eldhólf sem kallað er. Síðan er netsamband erfitt af Fellsströndinni. Þarna er enginn ljósleiðari. Hér syðra verður allt hins vegar samkvæmt ítrustu nútímakröfum og stutt að fara í alla þjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Ekki spillir svo fyrir þegar Sundabrautin verður lögð. Þá verður Vík í alfaraleið og bara tíu mínútur að renna niður í Vog,

hlær Arnþór Jónsson dátt við að lokum.

Hér má sjá myndband af Vík sem tekið var með dróna fyrir viku síðan:

Greinin birtist í landshlutafréttablaðinu Vesturlandi (smellið á forsíðu hér undir til að sjá blaðið):

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Svarthöfði skrifar: Úlfaldi úr mýflugu – margur heldur mig sig – allt í gosmóðu hjá stjórnarandstöðunni?

Svarthöfði skrifar: Úlfaldi úr mýflugu – margur heldur mig sig – allt í gosmóðu hjá stjórnarandstöðunni?
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Mikill meirihluti Íslendinga ánægður með beitingu kjarnorkuákvæðisins

Mikill meirihluti Íslendinga ánægður með beitingu kjarnorkuákvæðisins
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Segir hagsmunaskráningu þingmanna gagnslausa í núverandi mynd – „Eins og þeim finnist siðferðisleg viðmið óþörf“

Segir hagsmunaskráningu þingmanna gagnslausa í núverandi mynd – „Eins og þeim finnist siðferðisleg viðmið óþörf“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Sigmar Guðmundsson: Stjórnarandstaðan á erfitt með að sætta sig við nýjan veruleika í íslenskum stjórnmálum

Sigmar Guðmundsson: Stjórnarandstaðan á erfitt með að sætta sig við nýjan veruleika í íslenskum stjórnmálum
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Ísrael hefur sagt sig úr samfélagi siðaðra þjóða

Sigmundur Ernir skrifar: Ísrael hefur sagt sig úr samfélagi siðaðra þjóða
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Sigmar Guðmundsson: Veit ekki hvað formaður Sjálfstæðisflokksins er að fara með hótunum sínum – hér urðu valdaskipti

Sigmar Guðmundsson: Veit ekki hvað formaður Sjálfstæðisflokksins er að fara með hótunum sínum – hér urðu valdaskipti