Læknaskorturinn hefur verið að magnast á Íslandi mörg undanfarin ár. Það er náttúrlega erfið staða að vera láglaunaland við hliðina á löndum þar sem er meira ríkidæmi og laun miklu hærri.
Það er vandséð hvað hægt er að gera. Nú er yfirvofandi verkfall skurðlækna og mikill fjöldi unglækna lýsir því yfir að hann ætli ekki að snúa aftur heim úr framhaldsnámi. Ekki er hægt að skylda þá til þess.
En undireins og farið verður að hækka laun lækna hressilega, mun koma upp sú krafa að aðrar stéttir fá líka leiðréttingu launa sinna. Ófriður magnast upp á vinnumarkaði – verðbólga fer í gang og verðtryggð lán hækka.
Nú ber reyndar svo við að bæði heilbrigðisráðherrann og forstjóri Landspítalans segjast skilja kröfur lækna – sem formaður félags skurðlækna segir að séu nauðvörn fyrir heilbrigðiskerfið á Íslandi.
En einhvern veginn virkar það eins og ríkisvaldið sé alveg ráðalaust gagnvart þessu – og telji sig eiginlega ekki geta keppt um þetta eftirsótta vinnuafl lengur.
Það er í raun ekki hægt að kenna einni ríkisstjórn um þetta fremur en annarri. Við erum í slæmu ferli sem hefur staðið yfir í mörg ár. Í raun þyrfti einhvers konar þjóðarsátt til að bjarga heilbrigðiskerfinu, en ekkert slíkt virðist á döfinni. Frekar eins og hver höndin sé upp á móti annarri, sumir telja að einkavæðing sé allra meina bót, aðrir vilja meiri skattheimtu. En við skulum muna að með lélegu og úrsérgengnu heilbrigðiskerfi getur Ísland orðið óbyggilegt fyrir stóra hópa fólks.