Magnað er að lesa skáldsögu eftir Sofi Oksanen sem er nýkomin út undir íslenska heitinu Þegar dúfurnar hurfu.
Sofi Oksanen er höfundur hinnar víðlesnu bókar Hreinsun, hún er hálf eistnesk – líkt og Hreinsun fjallar nýja bóki um fólk frá Eistlandi.
Þarna er sagt frá atburðum sem ekki mega gleymast – en hafa þó lengi marað í hálfu kafi gleymskunnar.
Fjandsamlegur her réðst þrívegis inn í Eistland í heimsstyrjöldinni.
Fyrst voru það Sovétmenn sem hertóku landið 1940, fóru um með morðum, ofbeldi og handtökum – sendu mikinn fjölda manns til Síberíu.
Svo voru það Þjóðverjar sem hertóku landið 1941, ráku Sovétmenn burt, og fóru um með morðum, ofbeldi og handtökum. Fyrst fögnuðu þó margir Eistar Þjóðverjum sem frelsurum, frá Rauða hernum og lögreglusveitum NKVD.
1944 kom önnur innrás, þá voru það Sovétmenn sem ráku Þjóðverja á brott. Eistum fannst það ekkert sérstakt fagnaðarefni, þeir voru milli steins og sleggju. Enda fóru Sovétmenn um með morðum, ofbeldi og handtöku, og aftur var fjöldi manns sendur til Síberíu.
Um þetta fjallar Sofi Oksanen í skáldsögu sinni. Aðalpersónan er maður sem nær að fljóta alltaf ofan á, hann starfar fyrir Rússa, svo Þjóðverja og svo aftur Rússa – ekki síst við að svíkja gamla félaga sína og vopnabræður.
Í bókinni eru Rússarnir og þýsku nasistarnir lagðir fullkomlega að jöfnu. Báðum fylgir skelfilegt ofbeldi og spilling hugarfarsins.