Ég verð að viðurkenna að mér er lífsins ómögulegt að hafa skoðun á því sem er kallað „matarskattur“. Ég man fyrst eftir þessu hugtaki í fjármálaráðherratíð Jóns Baldvins Hannibalssonar. Þá tókst að búa til slíkt fjaðrafok kringum „matarskatt“ að enn loðir við nafn Jóns Baldvins. En „matarskattur“ er auðvitað ekki annað en virðisaukaskattur á matvæli.
Yfirleitt er það svo að teknókratar – og starfsmenn í ráðuneytum – eru hrifnir af því sem kallað er „einföldun á skattkerfi“. Samt ætti auðvitað ekki að vera neitt yfirmáta flókið á upplýsinga- og tölvuöld að hafa mismunandi skattþrep. En það virðist vera afskaplega erfitt að fá botn í hvað séu skattahækkanir og hvað séu skattalækkanir. Slík umræða er reyndar ekki ný á nálinni á Íslandi.
Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, orðar þetta vel í færslu á Facebook:
Hlusta með athygli á deilur um matarskatt. Þær byrjuðu uppúr 1960. Flestir hagfræðingar segja lægra matar-skattsþrep kléna aðferð til að koma þeim verst settu til góða. Á þetta hafa ríkisstjórnarmenn úr öllum flokkum fallist hvað eftir annað. En svo verða þeir popúlistar í stjórnarandstöðu og vilja bara ódýran mat!! Og sama þegar menn fara úr stjórnarandstöðu í stjórn. Eitt mesta ólán íslenskra stjórmála er stefnuflökt flokka eftir því hvort þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. Stundum halda sumir stjórnarfokkar reyndar áfram popúlisma eftir að þeir komast að kjötkötlum. Glöggur vinur sagði í hádeginu: „Nú hefur Bjarni Ben tekið við af Steingrími J sem kjölfestan í íslenskum stjórnmálum“. Umhugsunarvert …