fbpx
Föstudagur 18.júlí 2025
Eyjan

Léleg lestrarkunnátta – hvað er til ráða?

Egill Helgason
Laugardaginn 30. ágúst 2014 16:11

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég ætla að taka mér það bessaleyfi að birta í heild sinni grein eftir Sölva Sveinsson, skólamann og fræðimann, sem er prentuð í Morgunblaðinu í dag. Sölvi var gestur hjá mér í Viðtalinu á RÚV í vetur, en í þessari grein fjallar hann um lélega lestrarkunnáttu og orsakir þess að henni hrakar:

PISA-rannsóknin tekur til ákveðinna þátta í námi unglinga, einkum bóklegra, og lesskilningur er þar ofarlega á baugi, enda varðar það miklu að skólinn skili samfélaginu þegnum sem bæði geta lesið hratt og vel og skilið það sem þeir lesa. Á þetta skortir. Í síðustu PISA-könnun gátu einungis 79% 15 ára unglinga lesið sér til gagns. Af Norðurlandaþjóðum sátu einungis Svíar aftar á merinni. Þetta er óviðunandi og býður heim ófarsæld þegar börnin skrá sig í framhaldsskóla eða fara að eiga með sig sjálf, en kunna þá ekki fótum sínum forráð. Þetta er einnig fráleitt í ljósi þess að á hvert stöðugildi kennaramenntaðra starfsmanna í grunnskólum voru einungis 9,3 nemendur árið 2012, skv. Skólaskýrslu Sambands íslenskra sveitarfélaga.

 
Snemmsumars gaf Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra út Hvítbók þar sem hann markar brýnustu áherslur fyrir skólakerfið næstu ár og þeirra á meðal er, að í PISA-rannsókn, sem fyrirhuguð er 2018, hafi 90% nemenda góðan lesskilning. Þessu á að ná með því m.a. að styrkja móðurmálsnám, setja viðmið um lestur og lesskilning og fylgja þessu eftir af festu.

 
En af hverju er svona komið fyrir „bókaþjóðinni“ og hvað er til ráða? Ástæðurnar eru margar og bíta í skottið hver á annarri. Lítum fyrst á grunnskólana. Mjög víða er formlegri lestrarkennslu hætt eftir 4. bekk þótt lestur og lesskilningur séu á námskrá fyrir eldri bekki og við blasi að margir hafi ekki náð settum markmiðum í lok vertíðar í 4. bekk. Þetta gengur ekki upp. Í öðru lagi hafa nemendur líklega of margar greinar undir fyrstu árin þegar öllu máli skiptir að ná traustum tökum á lestri, skrift og reikningi. Í þriðja lagi hætta of margir ungir og efnilegir kennarar þegar þeir hafa sýnt sig og sannað; það er nefnilega svo að kennari, sem hefur fulla stjórn á 25 6-10 ára börnum og kemur þeim til nokkurs þroska, er eftirsóttur til ýmissa starfa sem skila fleiri aurum í pyngjuna. Gleði góða kennarans eykst heldur ekki þegar samkennari hans sinnir starfinu með hangandi hendi, en sama upphæð blasir við á launaseðlum beggja. Í fjórða lagi er það svo að ávallt mun eitthvert brot af hverjum árgangi eiga í erfiðleikum með lærdóm, ekki einungis í lestri, heldur yfirleitt.

 
Því næst má líta til menntunar kennara sem nú tekur fimm ár að loknu stúdentsprófi. Mörgum finnst sem þar megi leggja meiri áherslu á þjálfun í starfi, ekki síst kennslu í lestri. Lestrarhæfni er grunnur að velferð barnsins á því ferðalagi sem fyrir því liggur upp í gegnum skólakerfið. Kennaranám þarf að vera eftirsóknarvert fyrir öfluga námsmenn.

 
Þá beinast spjótin að foreldrum og forráðamönnum – og þar liggur lykillinn að farsælli niðurstöðu í samvinnu við skólana. Nú eru börn 180 daga á ári í grunnskólanum, en þau eru 365 daga með foreldrum sínum og degi betur í hlaupári. Æfingin skapar meistarann, segir málshátturinn. Í skólanum læra börnin tæknina til að lesa og þar lesa þau daglega á skólatíma, en einungis lítill hluti barna verður fluglæs ef þau lesa einungis daga skólaársins. Næðisstund foreldra og barna yfir bók – allt árið – eflir í senn lestrarhraða, skilning, orðaforða og einbeitingu. Foreldrar verða að forgangsraða tíma sínum með þetta í huga. Ýmsar athuganir sýna að fyrsta verk margra foreldra þegar heim kemur er að opna tölvupóst, vafra á neti, lesa fésbókina o.s.frv. áður en sest er að matborði. Þá er lítill tími til lestrar. Barni sem verður bókin töm hlekkist miklu síður á í skólagöngu sinni; hins vegar er bóklaus maður blindur, svo vísað sé í málshátt.

 
Það er líka á valdi foreldra að stjórna tölvunotkun barna sinna, en þráseta barna við tölvur eykur þeim eirðarleysi, dregur úr samskiptahæfni og þegar verst lætur bitnar tölvunotkun á svefni og heilnæmri hvíld – og ýtir undir ólæsi. Ég þekki marga unglinga sem eyða 3-6 klukkustundum á dag við tölvu að skóla loknum. Strákar eru þar í meirihluta og stunda mest leiki, stúlkurnar eru að jafnaði nær þremur klukkustundum en sex og eru fremur á samskiptasíðum en í leikjum. Tölvunotkun á þessum mælikvarða er fíkn. Í raun réttri er ákaflega mikið efni á netboðstólum sem á alls ekkert erindi við börn og unglinga. Vinsælustu leikir ungra drengja eru margir í þeim flokki og hlaðnir ofbeldi.
En hvaða ábyrgð ber þá samfélagið í heild? Andi þess er ekki beinlínis hlynntur lestri og bókum nú um stundir. Framboð á hvers konar afþreyingu er svo mikið að bóklestur á í harðri samkeppni. Elstu kynslóðirnar í landinu leituðu í bókina, hún var eiginlega það eina sem bauðst til dægradvalar. Öll tækni nútímans var langt inni í framtíðinni þegar sá sem hér skrifar var á sokkabandsárum, einungis Ríkisútvarpið rauf kyrrðina með einni rás. Plötuspilarar voru fágætir – og síminn einungis tæki á borði eða festur á vegg. Nú er hver einstaklingur gangandi tækniundur í krafti snjallsíma og spjaldtölva. Nokia – connecting people, hljómar kunnuglega. Finnar bættu við slagorðið: Disconnecting families.

 
Of margir horfa fram hjá þeim voða sem fjórðungs ólæsi er fyrir hverja kynslóð. Lestur og málskilningur er forsenda fyrir eðlilegri og farsælli þátttöku í lífi hverrar þjóðar, lykilhæfni til þess að koma sér vel fyrir í samfélagi við aðra. Því er brýnt að markmiðum Hvítbókar verði náð, en því miður eru feiknstafir á lofti: Útgáfa bóka fyrir börn og unglinga hefur snarminnkað undanfarin ár. Þýðir það ekki að býsna margir séu hættir að gefa börnum bækur? Þá erum við komin í háskalegan vítahring sem verður að rjúfa.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þinglok: Ríkisstjórnin styrkir stöðu sína – sundrung innan stjórnarandstöðunnar

Þinglok: Ríkisstjórnin styrkir stöðu sína – sundrung innan stjórnarandstöðunnar
Eyjan
Fyrir 3 dögum

„Við höfum ekki talað að þrýstingi hagsmunaaðila eða í umboði einhverra annarra en kjósenda okkar“

„Við höfum ekki talað að þrýstingi hagsmunaaðila eða í umboði einhverra annarra en kjósenda okkar“
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Minnihlutinn á Alþingi hefur ekki neitunarvald

Sigmundur Ernir skrifar: Minnihlutinn á Alþingi hefur ekki neitunarvald
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orð Sigurðar Inga um 71. grein og brotið lýðræði falla ekki í kramið – „Hættu að vinna fyrir Sjálfstæðisörflokkinn“

Orð Sigurðar Inga um 71. grein og brotið lýðræði falla ekki í kramið – „Hættu að vinna fyrir Sjálfstæðisörflokkinn“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

„Fullorðið fólk þarf að kunna að taka tapi í kosningum og una öðrum að fara með völdin“

„Fullorðið fólk þarf að kunna að taka tapi í kosningum og una öðrum að fara með völdin“
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Alþingi leyst úr gíslingu

Alþingi leyst úr gíslingu
Eyjan
Fyrir 1 viku

Stjórnarandstaðan hefur lagt fram hugmynd að lausn – „Við sjáum hvað setur“

Stjórnarandstaðan hefur lagt fram hugmynd að lausn – „Við sjáum hvað setur“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Baldur greinir stöðuna og varar við málamiðlunum – „Minnihluti þings ræður ferðinni á Alþingi þessa dagana“

Baldur greinir stöðuna og varar við málamiðlunum – „Minnihluti þings ræður ferðinni á Alþingi þessa dagana“