Vesturfarar er röð tíu sjónvarpsþátta. Sá fyrsti verður sýndur á RÚV klukkan 20.30 í kvöld. Þættirnir voru teknir upp á Íslandi og í Bandaríkjunum og Kanada í fyrra. Þeir fjalla um flutninga milli fimmtungs og fjórðungs íslensku þjóðarinnar til Vesturheims á árunum frá 1873 til 1914, fólkið sem fór og afkomendur þess.
Ásamt mér er höfundur þáttanna Ragnheiður Thorsteinsson sem sá um myndvinnsluna, en kvikmyndatökumaðurinn er Jón Víðir Hauksson.
Í Vesturförum er aðaláherslan lögð á söguna, bókmenntirnar og sagnir úr lífi Íslendinganna í Vesturheimi. Við hittum fólk af íslenskum ættum, sumt af því talar íslensku. Þeir eru enn til sem hafa klingjandi tungutak og nokkuð öðruvísi framburð en við hér heima – hugsanlega er þetta í ætt við íslensku sem var töluð á 19. öld norðaustanlands, en þaðan fóru flestir Vesturfararnir.
Vestanhafs förum við um Íslendingabyggðirnar á Nýja Íslandi, Gimli, Árborg, Riverton og Heklueyju og síðan til Winnipeg. Þar í borg var um skeið einhver helsta miðstöð íslenskrar menningar í heiminum, blómleg útgáfa bóka og blaða, í raun öflugri en var í Reykjavík.
Við hittum fólk eins og Jóhönnu Wilson. Afi hennar og amma voru í fyrsta hópnum sem kom til Nýja Íslands og bjó við erfið kjör. Og faðir hennar barðist í fyrri heimstyrjöldinni. Þetta eru merkilegar tengingar og ná langt aftur í fortíðina. Margir ungir íslenskir karlmenn börðust í her Kanada í heimstyrjöldinni og mannfallið meðal þeirra var mikið.
Það er merkilegt að kynnast fólki í Nýja Íslandi sem er alið upp í íslenskum bókmenntum. Þar voru sannkallaðir skáldbændur, menn sem kunnu ókjör af kveðskap og rímum. Við hittum fulltrúa þessarar hefðar, eins og David Gislason og Erlu Simundsson. Íslendingarnir sem fyrst komu til Kanada höfðu með sér mikið af bókum – þeir ætluðu að halda í þjóðerni sitt. Til lengdar var það auðvitað ekki hægt.
Við förum líka til Norður-Dakóta, Alberta og út á Kyrrahafsströndina. Þangað fluttu Íslendingar, gjarnan af annarri kynslóð innflytjenda, í mildara loftslag en á sléttunum miklu. Point Roberts er hluti af Bandaríkjunum, en landfastur við Kanada. Þar var sérstæð íslensk byggð – þegar Íslendingunum var tilkynnt að þeir mættu eiga landið sendu þeir Teddy Roosevelt Bandaríkjaforseta góða gjöf, gæru af kind.
Ég stikla á stóru. Þættirnir fjalla um innflytjendur. Kanada er land innflytjenda. Þeir koma í bylgjum, hver á eftir annarri, og þeir eru enn að koma. Íslendingarnir eru bara eitt lag í þessari sögu. Þeir fóru vestur til að leita sér að betra lífi – til að flýja hræðileg kjör í heimalandinu. Þannig eru þeir ekkert öðruvísi en innflytjendur nútímans. En þeir voru heppnir að vestanhafs beið þeirra opið land – og flestir náðu að skapa sé betra líf en hefði beðið þeirra í gamla landinu.
Fyrsti þátturinn, sem er sýndur í kvöld, er inngangur. Hann gerist allur á Íslandi. Þar er sagt frá bakgrunni vesturferðanna, deilum um þær, hinum svokölluðu ameríkuagentum sem seldu almenningi ferðirnar, harðindum, lífi á heiðabýlum – og brottförinni sjálfri þegar fólk kvaddi ættjörð, vini og ættingja sem það átti í flestum tilvikum aldrei eftir að sjá aftur.