Undanfarna daga hefur þess verið minnst að 70 ár eru frá D-degi, innrás herja Bandamanna í Evrópu sem þá var undir oki nasismans. Áhrif þessara miklu atburða verða seint ofmetin.
Innrásarherinn var að megni til bandarískur og breskur. Bretland féll ekki í hendur nasista, heldur þraukaði allt stríðið. Og það átti líka við um breska stjórnkerfið sem hélst óbreytt – jafnvel þó stríðshetjan Winston Chuchill hafi veri felldur í kosningum 1945 og hin umbótasinnaða stjórn Verkamannaflokksins og Clements Attlee tekið við.
Í Þýskalandi, Ítalíu og Frakklandi var annað uppi á teningnum. Þar þurfti að hugsa allt upp á nýtt, koma upp nýju stjórnkerfi. Þýskaland var hrunið, Ítalía hafði verið undir fasistastjórn, í Frakklandi hafði verið Vichy-stjórnin em starfaði með nasistum.
Það var sjálfur Winston Churchill sem lagði til að komið yrði upp evrópsku sambandsríki.
En hugmyndin var ekki að Bretland væri með. Bretland var sigurvegari í stríðinu – þótt í raun hefði það eyðilagt efnahag þess. Það var svo þversögn að Vestur-Þýskaland var miklu fljótara að ná sér efnahagslega eftir stríðið en Bretland. Skýringin var meðal annars sú að eyðingin í Þýskalandi var algjör, það var nauðsynlegt að byrja alveg upp á nýtt, meðan Bretar sátu uppi með úreltar verksmiðjur, iðnað og framleiðslutæki. Fyrir utan að þeir máttu sjá á bak nýlendum sínum.
Í Frakklandi var líka mikið framfaraskeið – meðan stöðnun ríkti á Bretlandi.
Það var svo loks 1972 að Bretland gekk í Efnahagsbandalag Evrópu eftir hafa áður fengið synjun. De Gaulle, áhrifamesti stjórnmálamaður Frakklands eftir stríðið, taldi að Bretar ættu ekki heima í Efnahagsbandalaginu sem nú heitir Evrópusambandið.
Sú tilfinning hefur líka alltaf verið mjög sterk í Bretlandi sjálfu – og sjaldan sterkari en nú þegar flokkurin UKIP er að vinna kosningasigra. Hann hefur beinlínis á stefnuskránni að Bretland hverfi úr ESB.
Reyndar er ýmsir í Evrópu sem telja best að Bretland láti sig hverfa. Einn þeirra er Michel Rocard, fyrrverandi forsætisráðherra Frakklands. Hann skrifar grein sem birtist í Guardian í fyrradag. Þar segir Rocard við Breta:
Farið burt áður en þið eyðileggið allt.
Michel Rocard í Silfri Egils 2010.