fbpx
Laugardagur 12.júlí 2025
Eyjan

Um meinta óbeit á öllu sem stenst tímans tönn

Egill Helgason
Sunnudaginn 29. júní 2014 09:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég lenti í nokkrum umræðum á Facebook í gær vegna ummæla Guðbergs Bergssonar í Fréttablaðsviðtali. Hann talaði um íslenska menningu, sagði að hún væri sérlega „grunn“ og að Íslendingar hefðu „óbeit á öllu sem stenst tímans tönn“.

Nú er sennilegt að Guðbergur – okkar helsti núlifandi rithöfundur – sé að ögra. Það gerir hann oft. Stundum veit maður ekki hvort hann meinar það sem hann segir – og í rauninni er það ljómandi gott. Svoleiðis hefur hann alltaf verið – ólíkindatól. En hann á það líka til að fara í nöldursgírinn – og tala eins og gamall kverúlant.

Í Facebook umræðunni datt einhverjum í hug að segja að íslensk menning væri nú ekki jafn djúp og sú sem væri að finna á Spáni, í Frakklandi og Þýskalandi. Það er víst alveg satt. Þarna eru milljónaþjóðir þar sem eru margra alda gamlir háskólar, þar sem var aðall og síðar borgarastétt sem gat haldið uppi alls kyns menningu. Samanburðurinn er út í hött.

Það sem mér fannst líka merkilegt var hversu margir virtust fagna þessu hjá Guðbergi, einn sagði að það væri mikill belgingur hér á Íslandi. En er það svo? Íslendingar eiga það til að verða dálitið upprifnir út af fyrirbærum eins og útrás og Íslenskri erfðagreiningu, en almennt séð eru þeir fullir efasemda um sjálfa sig og stöðu sína í veröldinni. Stundum virkar þetta eins og einhvers konar sjálfspynting, flagellantismi – eins og þegar fólk gleðst yfir þessum orðum Guðbergs. Það voru ansi margir sem deildu þeim á Facebook í gær og fannst þetta flott hjá karlinum.

Staðreyndin er sú að eitt helsta einkenni Íslands er feikilega mikill menningarlegur metnaður – það enginn rembingur eða belgingur að segja þettta. Bókaútgáfa furðulega mikil í landinu. Fjöldi íslenskra höfunda er þýddur reglulega á erlend tungumál – þeir hafa semsagt eitthvað fram að færa sem aðrar þjóðir vilja njóta. Þetta eru ekki bara spennusögur, heldur höfundar eins og Gyrðir, Auður Ava, Jón Kalman, Sjón, Steinunn Sigurðardóttir, Gerður Kristný, Eiríkur Örn Norðdahl, Hallgrímur, Einar Már og Einar Kára, jú, og Guðbergur sjálfur. Íslendingasögurnar komu nýskeð út í heildarútgáfum á þremur Norðurlandamálum. Sumir segja að þetta sé stærsta þýðingaverkefni í bókmenntasögunni.

Það er hugsanlegt að við séum að upplifa bókmenntalegan gullaldartíma. Það gæti tengst því að íslenskir höfundar hafa fundið sér stærri markað en áður. Þeir eru ekki lengur lokaðir inni með fámennri þjóð. Þeir eflast vegna áhuga erlendis og væntalega hafa þeir líka meiri tekjur vegna hans. Umfjöllunarefni þessara höfunda eru oft mjög hugkvæm, í senn alþjóðleg og íslensk.

Í þessu samhengi má til dæmis nefna Sjón. Höfundarverk hans er mjög alþjóðlegt, hann er vel lesinn í heimsbókmenntum og höfðar til erlendra lesenda, en mörk yrkisefni sín sækir hann á rammþjóðlega staði. Að sumu leyti finnur maður svipuð áhrif í sumri tónlist – til dæmis Sigurrósar.

Við þýðum heimsbókmenntir á íslensku. Á síðustu árum hafa komið út grundvallarrit eins og Rannsóknir Heródótusar og Ummyndanir Óvíds. Rit eftir Plató, Aristóteles, Hómer, Virgil eru aðgengileg á íslensku, og sömuleiðis grísku harmleikirnir og Shakespeare eins og hann leggur sig. Cervantes, Kierkegaard, Nietzsche, Dostojevskí, Akhmatova og svo má lengi telja. Reglulega koma út söfn með þýðingum á erlendum ljóðum.

Síðast þegar ég gáði voru fimm bókabúðir í miðbæ Reykjavíkur og það eru bókasöfn út um allt land. Sömuleiðis eru tónlistarskólar í hverju plássi og það hefur skilað einstaklega blómlegu tónlistarlífi. Miklu fé var kostað til að byggja tónleikahöllina Hörpu, en það hefur skilað sér – af nýlegum tónleikum þar má nefna 3. sinfóníu Mahlers, líklega hefur Sinfóníuhljómsveit Íslands aldrei leikið betur, Pierrot Lunaire eftir Schönberg með Kammersveit Reykjavíkur og Midsummer Music Festival sem Víkingur Ólafsson skipuleggur. Meðal tónlistaratriða sem eru væntanleg í Hörpu má nefna hljómsveit Wyntons Marsalis, sinfóníuhljómsveit Torontoborgar og Lundúnafílharmóníuna með Leif Ove Andsnes.

Sinfóníuhljómsveit Íslands leikur síðar í sumar á stærstu tónlistarhátíð í heimi, BBC Proms í Royal Albert Hall. Það er mikill heiður.

Sigurrós, Múm, Monsters and Men, ADHD, Mezzoforte, Retro Stefson, Hjaltalín, FM Belfast – Iceland Airwaves og nú Summer Solstice festival. Jú, Björk.

Hvað myndlistina varðar þá eru tvö stór listasöfn í Reykjavík. Þar er settur upp fjöldi sýninga á hverju ári. Fyrir utan gallerí. Ísland hefur í fyrsta sinn eignast stóra stjörnu á sviði alþjóðlegrar myndlistar sem er Ragnar Kjartansson (ég nefni ekki Ólaf Elíasson sem er á mörkum þess að teljast íslenskur). Sýning Ragnars í litlu galleríi við Hverfisgötu sló öll aðsóknarmet í vetur.

Það er óþarfi að halda þessari upptalningu áfram. Hér hafa ekki verið nefnd leikhúsin eða kvikmyndirnar, rannsóknir á sviði raun- og hugvísinda – eða nokkuð blómleg útgáfa sagnfræðirita. Við gætum auðvitað gert betur á ýmsum sviðum, eins og að byggja almennilega utan um handritin. Þegar dýpt umræðu er annars vegar keppum við kannski ekki við intelligensíu milljónaþjóða, en þó hafa menn verið að hugsa ýmslegt um þjóðmál síðustu árin – eins og sést á allri umræðunni um stjórnarskrármál. Það er ekki víst að umræðan í löndum þar sem vaða uppi stjórnmálamenn eins og Marine Le Pen, Pia Kjærsgaard eða Nigel Farage sé alltaf miklu betri.

En það má nefna útrásarvíkingarnir sem Guðbergur segir að hafi bara verið að kaupa glingur voru á sínum tíma að styrkja alls kyns menningarstarfsemi. Þeir eru reyndar skammaðir fyrir það í bókinni Hamskiptin eftir Inga Frey Vilhjálmsson. Sjálfur kom ég bara einu sinni inn á skrifstofu útrásarvíkings. Hún var á heilli hæð en hún var full af málverkum eftir þá núlifandi íslenska myndlistarmenn sem mig myndi helst langa að eiga verk eftir – en hef líklega ekki efni á. En það var reyndar merkilegt með menninguna hérna – hún efldist fremur eftir hrun en hitt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Elías Már til Kína
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Orðið á götunni: Stjórnlaus græðgi sumra þingmanna – fara í frí á fullum launum meðan þing situr

Orðið á götunni: Stjórnlaus græðgi sumra þingmanna – fara í frí á fullum launum meðan þing situr
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Thomas Möller skrifar: Krónan undir smásjánni … aftur!

Thomas Möller skrifar: Krónan undir smásjánni … aftur!
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Illugi Jökulsson: „Dómadagsþvaður“ frá þingmanni í ræðustól Alþingis – skyldi maðurinn ekki skammast sín?

Illugi Jökulsson: „Dómadagsþvaður“ frá þingmanni í ræðustól Alþingis – skyldi maðurinn ekki skammast sín?
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Skattagleði ríkisstjórnarinnar – „Þau bara hækka gjaldið á almenning í landinu“

Skattagleði ríkisstjórnarinnar – „Þau bara hækka gjaldið á almenning í landinu“