Það var einkennileg ráðstöfun að gera Sigurð Líndal að formann nýrrar stjórnarskrárnefndar. Sigurður er gamall íhaldsamur lögfræðingur sem hefur að mestu leyti verið mótfallinn stjórnarskrárbreytingum. Hann hefur haft mikil áhrif í gegnum tíðina sem kennari í lagadeild Háskólans, en það hefði varla verið erfitt að finna yngri, klárari og betur menntaða lögfræðinga – sem hafa innsýn inn í það sem er að gerast í stjórnarskrármálum erlendis.
Að sumu leyti virkaði þetta eins og ögrun. Sigurður hefur sagt að hann skilji ekki hugtakið „þjóðareign“. Sú tillaga Stjórnlagaráðs sem naut einna mests fylgis var einmitt auðlindaákvæðið svokallað – ákvæði um að auðlindir séu þjóðareign.
Fyrri stjórnarskrárnefndir hafa ekki náð samstöðu – sumar þeirra störfuðu lengi og en sama og ekkert kom út úr þeirri vinnu. Tilraunin með Stjórnlagaráð var gerð til að höggva á þann hnút. En því miður tókst hún ekki. Það var einfaldlega ekki nógu vel staðið að málinu – og eftir vægast sagt umdeilanlegan hæstaréttardóm var veikleiki ferlisins orðinn slíkur að það hlaut að fara út um þúfur.
En einhverjar tillögur Stjórnlagaráðs skjóta væntanlega upp kollinum í nefndinni. Manni sýnist reyndar á áfangaskýrslunni að verulegur skortur sé á samstöðu.
Þarna hefur einkum verið rætt um auðlindamál, sýnist manni, framsal valds til alþjóðlegra stofnana, og þjóðaratkvæðagreiðslur á grundvelli undirskriftasafnana.
Varðandi framsal valds þá er það þegar orðið svo mikið í gegnum EES samninginn að getur ekki samræmst stjórnarskrá. Um auðlindirnar verður aldrei sátt nema þá um eitthvað mjög loðið orðalag. Hvað varðar þjóðaratkvæðagreiðslur þá erum við í þeirri einkennilegu stjórnskipulegu stöðu að þær eru ekki haldnar nema forseti Íslands hafi áhuga á því, það er semsagt geðþótti hans sem ræður.
En þá er spurning hversu þröskuldurinn á að vera hár í undirskriftasöfnunum. 10 prósent, 20 prósent – eða hærri? Þjóðaratkvæðagreiðslur geta verið tvíeggjaðar. Sum mál eru kannski of flókin til að henta í þjóðaratkvæðagreiðslu, margir hafa fyrirvara á því hvort halda eigi þjóðaratkvæðagreiðslur um skatta, og svo kann að vera að kjósendur verði leiðir á þjóðaratkvæðagreiðslum ef þær eru of margar.
Þá er kjörsóknin fljót að fara niður í kannski 20-30 prósent. Einungis þeir áköfustu mæta á kjörstað.
Hvernig væri til dæmis ef segjum 15 prósentum þjóðarinnar tækist með undirskriftum að knýja fram atkvæðagreiðslu um hvort leyfa eigi moskubyggingar. Þetta yrði svo hugsanlega samþykkt í atkvæðagreiðslu þar sem þátttakan væri 30 prósent?
Gæti verið að fulltrúalýðræðið virkaði betur í slíku tilviki?