Eitt af því sem við höfum séð á síðari árum er algjör markaðsvæðing húsnæðismála. Þannig heyrir til dæmis sögunni til að hverfi séu skipulögð sem heild, með heildaryfirbragði, eins og var til dæmis um Fossvoginn á sínum tíma. Það hefur komist á eins konar verktakaræði.
Þetta hefur sínar slæmu hliðar – og verstar eru þær í nýjustu hverfunum eins og Grafarholti, í Hvarfahverfi í Kópavogi og á Völlunum í Hafnarfirði. Þar er eins og sé engin heildarhugsun – og fagurfræði hefur alveg verið kastað fyrir róða. Nakin hagkvæmnin ríkir ein í arkítektúrnum.
Það kemst lítið að í fyrir kosningarnar núna annað en Framsóknarflokkurinn, en húsnæðismálin eru eitt af því sem þyrfti að ræða. Samfylkingin setur fram mjög djarft loforð um að beita sér fyrir byggingu 2500-3000 búsetaréttar- eða leiguíbúða.
Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra hefur talað á svipuðum nótum, um húsnæðisskort og stórfellda uppbyggingu leiguhúsnæðis. Eygló vitnar beinlínis í fordæmi frá 1965 þegar gerðir voru kjarasamningar sem fólu í sér gríðarlega uppbyggingu íbúðarhúsnæðis fyrir lágtekjufólk.
Það var í kjölfarið á þessu að Breiðholtið fór að rísa, fyrst Neðra-Breiðholt og síðar Fellahverfið. Þetta var undir stjórn svokallaðrar Framkvæmdanefndar byggingaáætlunar.
Um Breiðholtið var mikið deilt á sínum tíma. Sumt þar heppnaðist vel, annað miður. Menn hafa horfið frá því í seinni tíð að reisa einsleit blokkahverfi af þessu tagi. Það er mjög varasamt að ætla að hrúga láglaunafólki saman á einn stað. Ætli menn að fara að beita hinu opinbera til að byggja húsnæði í stórum stíl þarf að fara að með mikilli gát hvað varðar arkítektúr, skipulag og íbúasamsetningu.
Breiðholtið fór að byggjast á tíma Framkvæmdanefndar byggingaáætlunar. Mjög vinsælt var fyrstu árin að sýna myndir af fólki sem var að hrekjast um innan um húsin sem stóðu á þessum berangri. Breiðholtið er nú vel gróið ólíkt því sem þá var.