Í New York Times frá því fyrir nokkrum misserum er að finna ritdóm um athyglisverða bók, The Moscow Bombings of September 1999: Examinations of Russian Terrorist Attacks at the Onset of Vladimir Putin’s Rule. Höfundurinn heitir John B. Dunlop, er sérfræðingur í málefnum Rússlands og Sovétríkjanna og hefur gefið út nokkrar bækur.
Þessar sprengjuárásir hafa löngum verið ráðgáta. Í þeim féllu 300 manns og mjög margir særðust. Uppreisnarmönnum í Tsétséníu var kennt um, en löngum hefur þótt leika vafi á sekt þeirra. Þessir atburðir eru einn lykillinn að því að hinn lítt þekkti Vladímír Pútín varð forseti Rússlands árið 2000, hann kom út úr þessu sem sterkur maður, ódeigur í baráttu við hryðjuverkamenn og Tsétséna.
Atburðirnir leiddu til mikillar andúðar á hryðjuverkamönnum, uppgangs þjóðernisstefnu og mögnunar lögreglueftirlits, en þeir hafa í raun aldrei verið rannsakaðir til hlítar af yfirvöldum.
Dunlop segist vera að vinna undirbúningsrannsókn – sem mætti nota ef svo ólíklega vildi til að einhvern tíma yrði gerð alvöru opinber rannsókn.
Niðurstaða hans er að það séu yfirgnæfandi líkur á því að yfirvöld í Rússlandi hafi verið að baki þessum hryllilegu árásum. Þar berast böndin að klíku sem var í kringum Jeltsín forseta – sem var algjörlega að missa tökin – og rússnesku öryggislögreglunni FSB, arftaka KGB, en þar var Pútín meðal yfirmanna.
Efni greinarinnar verður ekki rakið í smáatriðum hér, en meðal annars er þar fjallað um Nikolai Patrushev, yfirmann FSB, nú formaður þjoðaröryggisráðs Rússlands, sem varð margsaga varðandi árásina – og tilraun til að sprengja blokk í Ryazhan, skammt frá Moskvu, sem fór út um þúfur. Þar sást beinlínis til FSB-manna, en árvökulir íbúar komu í veg fyrir sprengingu.
Petrushev kom til Íslands í mars 2012 og átti fund með Össuri Skarphéðinssyni, þáverandi utanríkisráðherra. Sagði í fréttatilkynningu að þeir hefðu rætt álefni Norðurslóða og gott samstarf ríkjanna á tvíhliða grunni og sitthvað fleira.
Vladimir Patrushev, fyrrum yfirmaður FSB, náinn samherji Pútíns og yfirmaður þjóðaröryggisráðs Rússlands, kemur mikið við sögu í bókinni um sprengjuárásirnar í september 2000. Hlutur hans þykir heldur tortryggilegur. Hér er Petrushev í Reykjavík með Össuri Skarphéðinssyni sem þá var utanríkisráðherra.