Ólafur Ragnar Grímsson forseti segir að Íslendingar hefðu ekki staðið betur að vígi í efnahagshruninu ef þeir hefðu tekið upp evru. Ólafur fer um lönd og setur fram þann boðskap að Ísland hafi risið með einstaklega góðum hætti upp úr kreppunni og hann mærir gengisfellingar – við það má náttúrlega setja spurningamerki. Við erum fjarskalega skuldsett, við búum við gjaldeyrishöft, laun eru afskaplega lág. Og það er náttúrlega ekki rétt að ekki hafi verið sett fé í bankana – eða hvernig fór Seðlabankinn á hausinn? Gríðarlegir fjármunir fóru svo í endurreisn bankakerfisins eftir hrun.
Marinó Gunnar Njálsson veltir orðum Ólafs Ragnars fyrir sér í pistli á Facebook. Ég tek mér það bessaleyfi að birta hann í heild. Marinó segir að með evrunni hefði ekki orðið gjaldmiðilshrun, ekki gjaldeyriskreppa og ekki skuldakreppa eins og við þekkjum hana í dag.
Sú fullyrðing að evran hefði ekki gagnast Íslandi í efnahagshruninu er held ég illa rökstudd og rannsökuð. Ef við hefðum verið með annan gjaldmiðil en krónuna í undanfara hrunsins, þá hefðu mjög margar forsendur breyst.
1. Skuldsetning fyrirtækja og heimila hefðu verið í óverðtryggðum og ógengistryggðum lánum á eðlilegum vöxtum: Þetta er stærsta óleysta viðfangsefnið núna. Skuldir heimila og fyrirtækja hækkuðu gríðarlega vegna hruns gengisins. Það hefði ekki gerst með evruna.
2. Stjórn peningastefnu hefði verið hjá Seðlabanka Evrópu: Ekki hefði verið þörf á að halda hér himin háum stýrivöxtum til að hafa stjórn á verðbólgu. Hún hefði líklegast haldist í hendur við verðbólgu í helstu viðskiptalöndum.
3. Seðlabanki Evrópu hefði verið lánaveitandi til þrautavara fyrir íslensku bankana og hann hefði líka haft meira eftirlit með endurhverfum lánum til þeirra: Þetta hefði líklegast breytt mestu. Í fyrsta lagi hefðu meiri líkur verið á, að stór erlendur banki hefði verið búinn að kaupa a.m.k. einn af íslensku bönkunum, ef ekki fleiri. Næsta er að þeir íslensku bankar sem hefðu verið starfandi hefðu haft trausta mynt að vinna með og sterkan lánveitanda til þrautarvara að leita til.
4. Vaxtamunarviðskipti hefðu ekki átt sér stað: Snjóhengjan hefði ekki orðið til, þar sem vextir á Íslandi hefðu verið þeir sömu og annars staðar innan evrusamtarfsins.
5. Gengissveiflur hefðu fylgt myntum stærstu viðskiptalanda okkar: Hefði leitt af sér stöðugra rekstrarumhverfi fyrirtækja og fjárfesta.
6. Myntin hefði verið alþjóðleg, studd af öllu evrusvæðinu: Þetta atriði skiptir miklu máli fyrir bóluvæðinguna sem var í íslenska hagkerfinu. Þegar fjárfestar hefðu getað farið hvert sem var með fjármuni sína, þá hefði verið minni þörf fyrir að spenna allt upp innanlands.
Ég er ekki að segja, að hrunið hefði ekki orðið, en það hefði orðið allt öðruvísi. Ekki hefði orðið gjaldmiðilshrun, ekki hefði orðið gjaldeyriskreppa og ekki hefði orðið skuldakreppa í líkingu við það sem við þekkjum í dag.
Mér þykir líklegt, að ekki hefði verið þörf fyrir þennan kost að geta fellt gengið, vegna þess að aðstæðurnar hefðu ekki myndast sem kölluðu á slíka gengisfellingu. Allt veltur þetta á því hvenær við hefðum tekið upp evruna og mikilvægt er að við umskiptin að þau hefðu farið fram á réttu gengi.
Meginpunktur minn er þó: Aðstæður á Íslandi hefðu verið allt aðrar, ef við hefðum haft evruna sem mynt árin fyrir hrun. Við hefðum ekki þurft óhefðbundin viðbrögð eftir hrun. Við hefðum ekki þurft að skýla okkur bakvið gjaldeyrishöft. Við hefðum ekki þurft þá gríðarlegu endurskipulagningu skulda sem verið hefur í gangi sl. 6 ár.
Ég er sannfærður um að það hefði gjörbreytt öllu, ef mynt landsins hefði verið evra, dollar eða önnur sterk, alþjóðlega viðurkennd mynt. Og hver sem sú mynt hefði verið, þá hefði það gagnast Íslandi.